Fimmta smitið í Öldutúnsskóla

Börn að leik í Öldutúnsskóla í Hafnarfirði.
Börn að leik í Öldutúnsskóla í Hafnarfirði. Ljósmynd/Sverrir Vilhelmsson

Hátt í 30 nemendur í fimmta bekk og þrír starfsmenn Öldutúnsskóla í Hafnarfirði eru komnir sóttkví eftir að kórónuveirusmit var staðfest síðdegis í gær hjá nemanda.

Að sögn Valdimars Víðissonar skólastjóra smitaðist barnið ekki í skólanum. Smitið tengist öðru smiti sem hafði áður komið þar upp.

Þetta er í fimmta sinn sem smit kemur upp í skólanum frá því í mars í fyrra. Í síðustu viku þurftu hátt í 70 manns að fara í sóttkví í skólanum og í lok mars um 200 manns eftir að smit kom upp.

„Það hefur gengið á ýmsu. Við erum orðin vel sjóuð í þessu verklagi hjá smitrakningarteyminu og þetta gengur nokkuð hratt fyrir sig. Við myndum gjarnan vilja vera án þess að vera í þessu en svona er þessi veruleiki í dag,“ segir Valdimar.

Allir sem eru í sóttkví fara í skimun mánudaginn 19. apríl. Fjölskyldum barna í viðkomandi bekkjum hefur verið gert viðvart um smitið og verða þau börn í sóttkví heima næstu daga.

Valdimar Víðisson skólastjóri Öldutúnsskóla.
Valdimar Víðisson skólastjóri Öldutúnsskóla.

Verði meira vakandi fyrir einkennum

Börn í öðrum bekkjum skólans eru ekki talin hafa verið berskjölduð fyrir smiti og þurfa því ekki að fara í sóttkví. Valdimar segir þessi mál erfið í 650 barna skóla og mikla ábyrgð fólgna í því að segja hverjir fari í sóttkví og hverjir ekki. Eftir rakningu var aftur á mótið talið að þessi hópur væri berskjaldaðastur.

„En við útilokum ekki að einhverjir snertifletir séu mögulega til staðar. Þess vegna sendum við á foreldra í skólanum að fara sérstaklega varlega, eins og segir í póstinum [sem skólastjóri sendi til foreldra] um að vera meira vakandi fyrir einkennum en ella,“ segir hann en vonar að búið sé að ná utan um hópinn sem talinn er berskjaldaðastur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert