Íslendingur settur á svartan lista Kínverja

Sendiráð Kína á Íslandi, við Bríetartún.
Sendiráð Kína á Íslandi, við Bríetartún. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenskur maður, sem starfar sem lögmaður og hefur gagnrýnt kínversk stjórnvöld með skrifum í Morgunblaðið, var kallaður á fund í utanríkisráðuneytinu í morgun þar sem honum var tilkynnt að hann væri kominn á svartan lista stjórnvalda í Kína, einn Íslendinga. 

Þetta staðfesti Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, í samtali við mbl.is.

Litið er á svartan lista sem þvingunaraðgerð og er maðurinn til að mynda í farbanni til Kína. Þá eru fjármunir fólks í Kína á svörtum lista frystir, eigi þeir slíka. 

Íslensk stjórnvöld mótmæla

Gunnari Snorra Gunnarssyni, sendiherra Íslands í Peking, var tilkynnt um ákvörðun kínverskra stjórnvalda í gær.

Sveinn segir að íslensk stjórnvöld hafi mótmælt aðgerðinni, bæði hafi sendiherra Íslands í Peking komið á framfæri mótmælum við fulltrúa utanríkisráðuneytis Kína þegar honum var greint frá ákvörðuninni. Einnig hafi sendiherra Kína komið á fund í utanríkisráðuneytið þar sem mótmælum var komið á framfæri við hann. 

„Þeim var jafnframt bent á að það ríkir fullt málfrelsi hér á Íslandi. Þessi einstaklingur ber ekki neina ábyrgð á íslenskum stjórnarathöfnum sem stjórnvöld í Kína kunna að vera ósátt við,“ segir Sveinn. 

Sendiráð Kína á Íslandi.
Sendiráð Kína á Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svar við þvingunaraðgerðum 

Samkvæmt heimildum mbl.is stendur til að Ísland taki þátt, ásamt fjölmörgum vestrænum ríkjum, í þvingunaraðgerðum gegn kínverskum lögaðilum og einstaklingum sem bera ábyrgð á mannréttindabrotum í Xinjiang-héraði gegn úíg­úr-múslim­um. 

Líklegt er að aðgerðir kínverskra stjórnvalda séu viðbragð við tilvonandi þátttöku Íslands í aðgerðunum. Reglugerð þar sem þvingunaraðgerðirnar formgerast hefur ekki verið gefin út enn, en aðgerðirnar hafa verið til umræðu bæði í ríkisstjórn Íslands sem og í utanríkismálanefnd Alþingis. 

Ísland hefur gagnrýnt framgöngu Kína gagnvart úígúr-múslimum bæði á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna og í tvíhliða samskiptum. 

Hefur verið gagnrýninn á Kína

Maðurinn sem settur var á svartan lista kínverskra stjórnvalda heitir Jónas Haraldsson. Hann segir í samtali við mbl.is að honum hafi verið tilkynnt að tilefni þessa séu skrif hans í Morgunblaðinu.

Jónas Haraldsson.
Jónas Haraldsson. Ljósmynd/Aðsend

Jónas hefur gagnrýnt umgengni við fast­eign sem var í eigu kín­verska sendi­ráðsins í skrifum sínum í Morgunblaðið, skrifað um þátt Kína í kórónuveirufaraldrinum og um kínverska ferðamenn.

„Ég er þarna eini Íslendingurinn, eini Íslendingurinn sem Kínverjum finnst þess virði að hrækja á. Ég er auðvitað stoltur af því,“ segir Jónas í samtali við mbl.is. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert