Segja þvingunaraðgerðir byggðar á lygum

Kínverska sendiráðið á Íslandi, við Bríetartún.
Kínverska sendiráðið á Íslandi, við Bríetartún. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í yfirlýsingu frá kínverska sendiráðinu á Íslandi er þess krafist að Ísland hætti öllum afskiptum af kínverskum innanríkismálum undir yfirskini mannréttindamála.

Kínverska sendiráðið staðfestir í yfirlýsingunni að Jónas Haraldsson, íslenskur lögmaður og lífeyrisþegi, hafi verið settur á svartan lista kínverskra yfirvalda. Þá staðfestir yfirlýsing sendiráðsins einnig að þvingunaraðgerðin gagnvart Jónasi sé svar við þátttöku Íslands í þvingunaraðgerðum gagnvart kínverskum einstaklingum og lögaðilum sem taka þátt í mannréttindabrotum í Xinjiang-héraði gagnvart úígúra-múslimum.

„Kína hefur ákveðið að beita gagnkvæmum refsiaðgerðum gagnvart einum íslenskum einstaklingi sem skaðar fullveldi og hagsmuni Kína alvarlega með því að dreifa lygum og upplýsingaóreiðu með illgjörnum hætti,“ segir í tilkynningunni.

Fullyrt er í yfirlýsingunni að Ísland hafi ákveðið að taka þátt í þvingunaraðgerðum sem byggist ekki á neinu nema lygum og falsfréttum og að ákvörðunin brjóti alþjóðleg lög og óskrifaðar reglur um alþjóðasamskipti. Þá er því haldið fram að þátttaka Íslands í þvingunaraðgerðunum grafi verulega undan samskiptum Íslands og Kína.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert