„Mannréttindi eiga við alla, alls staðar“

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að frá því að honum var tilkynnt að íslenskur borgari myndi sæta refsiaðgerðum að hálfu kínverskra stjórnvaldi hafi honum verið ljóst að það væri svar kínverskra stjórnvalda við tilvonandi þátttöku Íslands í þvingunaraðgerðum vegna mannréttindamála í Xinjiang-héraði.

Þessu svaraði Guðlaugur spurður hvort mikilvægt hafi verið að fá staðfestingu á því að aðgerðirnar væru í beinu samhengi við téða þátttöku Íslands í aðgerðum Vesturlanda.

„Það er óviðunandi að beita íslenskan ríkisborgara refsiaðgerðum fyrir að nýta sér stjórnarskrárvarin réttindi sín – málfrelsið,“ ítrekar Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í samtali við mbl.is.

Eigum fjölmargt sameiginlegt með Kína

Hvernig svarar þú kröfum Kínverja um að Ísland láti af afskiptum af þeirra innanlandsmálum?

„Mannréttindi eru algild og eiga við alla, alls staðar. Um það kveða á fjölmargir mikilvægir sáttmálar, sem meðal annars Kína á aðild að.“

Guðlaugur Þór segir að öllum sé frjálst, þar á meðal kínverskum stjórnvöldum, að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. „Við hvetjum þá til að eiga það samstarf við alþjóðastofnanir til að komast að niðurstöðu í þeim málum sem menn eru ekki sammála um.“

Fram kemur í yfirlýsingu frá sendiráði Kína á Íslandi að málið muni hafa áhrif á samskipti þjóðanna. Guðlaugur Þór bendir á að á þessu ári verði haldið upp á 50 ára stjórnmálasamband Íslands og Kína. „Það eru fjölmörg mál sem við eigum sameiginleg, bæði tvíhliða og alþjóðleg, með Kínverjum. En það þekkja allir afstöðu okkar í mannréttindamálum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina