Flateyri frekar en Prag

Juraj Hubinák er verkefnastjóri við Lýðskólann á Flateyri en hann …
Juraj Hubinák er verkefnastjóri við Lýðskólann á Flateyri en hann flutti hingað til lands fyrir rúmu ári. Ljósmynd/Ísak Einarsson

Juraj Hubinák, verkefnastjóri markaðs- og alþjóðamála Lýðskólans á Flateyri, flutti til Íslands fyrir rúmu ári eða skömmu eftir snjóflóðin og rétt fyrir Covid-19. Hann er alsæll á Vestfjörðum og hvetur fleiri til að flytja til Flateyrar en opið er fyrir umsóknir við skólann næsta vetur.

Hans helsta starf innan skólans er að þróa alþjóleg samskipti og alþjóðlega námsbraut sem stefnt er á að bjóða upp á í skólaunum frá og með 2022, hann sinnir auk þess markaðsmálum, er í samskiptum við nemendur og tekur almennan þátt í daglegu starfi skólans. 

Frá snjóflóðunum á Flateyri í janúar í fyrra.
Frá snjóflóðunum á Flateyri í janúar í fyrra. mbl.is/RAX

Hann er með doktorsgráðu í leiklistarfræðum frá Leiklistarakademíunni (VŠMU) í Bratislava í Slóvakíu og meistaragráðu á sama sviði frá Charles-de-Gaulle-háskóla í Lille í Frakklandi.

Juraj er með 15 ára reynslu af markaðsstörfum, samfélagsmiðlum, verkefnastjórnun og listrænum verkefnum í sjónvarpi og leikhúsum. Hann er auk þess sjálfstætt starfandi rithöfundur og leikstjóri.  

Þá var ekki aftur snúið

Juraj og unnusti hans, Eyjólfur Karl Eyjólfsson, keyptu hús á Flateyri í júní 2019 án þess að hafa séð húsið. Nokkrum mánuðum síðar fluttu þeir þangað, eða tveimur vikum áður en Covid-19-faraldurinn herjaði á Ísland sem og önnur ríki Evrópu. Skömmu áður höfðu snjóflóð fallið á byggðina á Flateyri. 

„Við fluttum í lok febrúar en snjóflóðin féllu í lok janúar og veturinn var búinn að vera mjög erfiður hér fyrir vestan,“ segir Juraj í samtali við mbl.is.

Ljósmynd/Víðir Björnsson

Þegar þeir komu til Flateyrar var aftakaveður og ekki búið að rýma húsið að fullu þar sem ófærð hafði komið í veg fyrir að eigendur þess gætu tæmt það. „Þetta var mjög erfitt,“ segir Juraj og hlær.

Spurður út í það hvers vegna þeir hafi keypt hús á Flateyri segir hann að þeir hafi ætlað að kaupa sér íbúð í Prag þar sem þeir bjuggu á þessum tíma. En hátt fasteignaverð vegna AirBnB kom í veg fyrir það. Sama vandamál sé upp á teningnum í Prag og í Reykjavík, allt of lítið er byggt af íbúðum fyrir þá sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð. „Þannig að við fórum að leita víðar, þar á meðal á Íslandi,“ segir Juraj sem starfaði við markaðsmál í Prag fyrir vörumerki eins og Chupa Chups, Mentos, Johnnie Walker og Tesco.

„Við sáum húsið á sölu um það bil ári áður en við keyptum það. En síðan var það tekið af sölu. Þegar það kom aftur í sölu skoðuðum við það á netinu og leist vel á. Við skoðuðum áfram og sáum að það tæki aðeins 20 mínútur að keyra á Ísafjörð þar sem er flugvöllur. Þá var ekki aftur snúið og við keyptum húsið tveimur eða þremur dögum síðar,“ segir Juraj.

Ljósmynd/Víðir Björnsson

Hann segir að þeir hafi vitað að þetta var sennilega eitt síðasta tækifærið til að eignast hús á þessum stað á viðráðanlegu verði því það er svo stutt á næsta flugvöll. „Þegar við komum til Íslands sóttum við lyklana á Ísafirði og hér erum við enn og viljum hvergi annars staðar vera. Við finnum það ekki síst þegar við förum til Reykjavíkur. Eftir einn klukkutíma þar viljum við ekkert annað en að snúa aftur heim til Flateyrar. Í burtu frá menguninni, umferðinni og stressinu,“ segir Juraj. Hann segir að þrátt fyrir vera borgarlífi vanur jafnist það ekkert á við kyrrðina á Vestfjörðum.

Um 30 nemendur á vetri

Opið er fyrir umsóknir við Lýðskólann á Flateyri fyrir næsta haust, sem verður fjórða starfsár hans, og hægt að sækja um til 16. júní að sögn Juraj. Um 30 nemendur komast að á hverjum vetri og í dag eru tvær námsbrautir við skólann. Önnur þeirra snýst mikið um útivist en hin er meira á sviði skapandi greina. 

Ljósmynd/Víðir Björnsson

Með náms­braut­inni Fjöll­in, hafið og þú er lögð áhersla á að nýta þær auðlind­ir sem til eru í nátt­úru, menn­ingu og sam­fé­lagi á Flat­eyri og í nærsveit­um og með nám­skeiðum er lögð áhersla á færni, þekk­ingu og verk­efni sem miða að því að nem­end­ur verði fær­ari í að ferðast um í nátt­úr­unni, njóta henn­ar og nýta sér auðlind­ir henn­ar á ör­ugg­an og um­hverf­i­s­væn­an máta.

Ljósmynd/Víðir Björnsson

Með náms­braut­inni Hug­mynd­ir, heim­ur­inn og þú er lögð áhersla á hug­mynda­vinnu og sköp­un og út­færslu í hvers kyns form­um, auk tján­ing­ar og miðlun­ar. Með nám­skeiðum er lögð áhersla á ólík skap­andi verk­efni sem miða að því að nem­end­ur öðlist færni í heim­ilda­öfl­un, mark­vissri hug­mynda­vinnu og sköp­un í ólík­um form­um auk miðlun­ar til sam­fé­lags­ins.

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert