Pössum ekki öll inn í sama ramma

„Að sitja kyrr við borð í fjörutíu mínútur eða lengur …
„Að sitja kyrr við borð í fjörutíu mínútur eða lengur í kennslustund hentar kannski ekki öllum. Við erum öll sett inn í sama rammann og ef barn passar ekki inn í hann getur það átt erfitt uppdráttar,“ segir Gunnþórunn Jónsdóttir kvikmyndagerðarkona. mbl.is/Ásdís

„Ég fékk mikinn áhuga á íslenska skólakerfinu, sérstaklega stöðu drengja,“ segir kvikmyndagerðarkonan Gunnþórunn Jónsdóttir sem nú er með heimildamynd í bígerð sem hún vinnur að með Hermundi Sigmundssyni prófessor í lífeðlislegri sálfræði. 

Skoða rót vandans

„Hugmyndin að þáttunum kom fyrst út frá umfjöllun minni um fanga og meðal annars rétt þeirra til menntunar. Fangelsin okkar eru oftast full og stór hluti fanga eru karlmenn. Einhvern tímann voru allir þessir einstaklingar börn. Ég trúi því að hægt sé að koma í veg fyrir svo mörg samfélagsleg vandamál ef rót vandans yrði skoðuð. Hvar getum við sem samfélag gert betur? Við þurfum að hlúa betur að börnum frá grunni, í stað þess að þurfa seinna meir að takast á við krísur,“ segir Gunnþórunn.

„Staða drengja er ekki nógu góð og við þurfum breytingar; helst þyrfti að fara í allsherjarátak hér á landi. Það má samt ekki koma niður á stúlkum. Við eigum að geta gert svo miklu betur, svona lítil þjóð,“ segir Gunnþórunn en þættirnir verða sex, hver þáttur með sitt þema.

Er kerfið of þungt?

Í þáttunum verða viðtöl við fagfólk, sérfræðinga og svo reynslusögur frá foreldrum eða fólki sem hefur eitthvað að segja um sína skólagöngu. Gunnþórunn segist finna mikinn meðbyr varðandi málefnið, en tökur hefjast í næstu viku. Hún biðlar til fólks sem vill segja sína sögu af menntakerfinu að hafa samband við sig; því fleiri sögur, því betri heildarmynd.

„Við erum að leita að reynslusögum frá foreldrum eða nemendum. Það eru margir mjög opnir og fólk vill tala um þessi mál. Fólki finnst vera kominn tími til að knýja fram breytingar til hins betra. Mér finnst eins og þetta umræðuefni hafi verið viðkvæmt og reglulega hafi farið af stað góð umræða um skólakerfið en svo deyr hún fljótt út. Það gerist afskaplega lítið sem er áhugavert. Er kerfið svona þungt? Erum við hrædd við breytingar? Þættirnir eiga ekki að finna blóraböggla eða slíkt heldur er markmið okkar Hermundar að skoða lausnir og möguleika. Eins og Hermundur hamrar alltaf á; hvað segja vísindin okkur?“

Öll sett inn í sama ramma

Gunnþórunn og Hermundur telja lesturinn vera eitt það helsta sem þarf að laga. Staðan hefur aldrei verið jafn slæm og hún er í dag en til að mynda geta tæplega 35% drengja og 19% stúlkna ekki lesið sér til gagns og gamans eftir tíu ára skólagöngu.

„Þetta eru sláandi tölur. Það þarf að passa að öll börn sem stíga inn í grunnskóla séu með góðan málþroska. Ef barn getur ekki tjáð sig nógu vel eða lesið á það erfiðara með félagslega þáttinn og tengsl. Ef eitthvað er að þarf að veita aðstoðina strax, en það eru svo langir biðlistar alls staðar. Það er rosalega mikið að bíða kannski í tvö ár eftir að komast að hjá talmeinafræðingi fyrir barn sem er fjögurra ára,“ segir Gunnþórunn og nefnir einnig að jafnvel mætti breyta kennsluháttum.

„Að sitja kyrr við borð í fjörutíu mínútur eða lengur í kennslustund hentar kannski ekki öllum. Við erum öll sett inn í sama rammann og ef barn passar ekki inn í hann getur það átt erfitt uppdráttar. Kannski þurfa börn meiri hreyfingu, að fara meira út í náttúruna og jafnvel að hafa kennslustundir fjölbreyttari. Ég veit að álagið á kennara er gríðarlegt, með marga nemendur í bekk og lítið svigrúm til umbóta,“ segir hún og segist sjálf vilja sjá meiri rækt við hugann, eins og að innleiða hugleiðslu og hugarfarsþjálfun í námskrá barna.

„Þegar allt kemur til alls vilja allir gera betur í skólakerfinu. Allir vilja að börnunum okkar líði vel og að þau fái þá þjónustu sem þau þurfa á að halda. Flest erum við foreldrar eða höfum börn í kringum okkur og ég trúi að það sé vilji til að laga ástandið.“

Ítarlegra viðtal er við Gunnþórunni í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.  

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »