Gosið sýnir ekki á sér fararsnið

Drónatækni hefur gert okkur kleift að sjá eldgosið í Geldingadölum breytast fyrir framan augun á okkur. Nýtt myndband sem Ólafur Þórisson tók síðastliðinn fimmtudag sýnir vel hversu mikið ásýnd eldgossins í Geldingadölum hefur breyst síðan gígarnir hófu að setja á svið ljósasýningu fyrir landsmenn fyrir tæpum mánuði.

Myndbandið, sem er tekið upp í þoku, gæti vel verið atriði í Hringadróttinssögu eða öðru drungalegu ævintýri og á því sjást ekki bara gígarnir spúa eldi heldur sést kvika vella upp úr því sem virðist vera hraunpollar á milli gíganna á nokkrum stöðum.

Gígarnir eru orðnir minnst átta talsins og hraun er nú farið að renna inn í Geldingadali. Nokkur umræða var í upphafi gossins um hvort um dyngjugos væri að ræða, sem þá gæti staðið yfir í ár. Sigþrúður Ármannsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni, segir að enn sé ekki vitað hvort svo sé en í það minnsta sýni gosið ekki á sér neitt fararsnið.

Ljósmynd/Ólafur Þórisson
mbl.is