Erfitt að segja til um hvort gosið sé að minnka

Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Háskóla Íslands, á fundi dagsins.
Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Háskóla Íslands, á fundi dagsins. Ljósmynd/Almannavarnir

Breytt hegðun gossins í Geldingadölum í nótt getur gefið vísbendingar um að farið sé að draga úr gosvirkninni. Um það er þó erfitt að spá að svo stöddu, en hegðun eins og sást í nótt, þegar gosstrókurinn í Geldingadölum hækkaði skyndilega margfalt, er vel þekkt í gosum sem þessum. 

Þetta segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur við mbl.is.

„Það getur verið að gosið sé að leita sér að öðrum stað til að koma upp á yfirborðið eða þá að það sé farið að draga aðeins úr virkninni,“ segir Magnús. 

Erfitt að spá fyrir um goslok

Magnús segir einnig að breytingar á hegðun gossins í nótt sé eitthvað sem vel er þekkt. Hann tekur Surtseyjargosið árið 1963 sem dæmi, þá virtist draga skyndilega úr virkni gossins en þrátt fyrir það hélt áfram að gjósa í einhver ár. 

„Þetta er algengt þegar fer að draga úr gosum. Í rauninni eins og Surtseyjargosið, það komu svona stopp í það en það hélt nú áfram árum saman. Þannig að það er voða erfitt að fara að draga of miklar ályktanir af þessu. Það er alveg ljóst hins vegar að hraunflæðið var ekki það sama, það var eitthvað trufla það. Og ástæðan fyrir því getur verið að það sé einhvers staðar þrenging eða þá að það sé að leita sér að öðrum stað til að koma upp – það er ekki komið neitt fram um það að minnsta kosti.“

Nú fer hver að verða síðastur að gera sér ferð …
Nú fer hver að verða síðastur að gera sér ferð að gosinu. Eða hvað? mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki sama hegðun og þegar ný gosop myndast

Spurður að því hvort hegðun gossins nú sé sú sama og hefur sést þegar hin fjölmörgu gosop hafa myndast í Geldingadölum og Meradölum segir Magnús að svo sé ekki. 

„Það að rásin sé eitthvað að þrengjast eða eitthvað slíkt, þetta er ekki eitthvað sem við höfum áður séð í þessu gosi, ekki með þessum hætti. Það sést líka að það fylgir þessu órói, sem er nú mjög veikur en hann sést samt á mælum. Menn eru með svona ýmsar tilgátur en það er voða erfitt að segja til um allt á þessum tímapunkti.“

Magnús kjarnar stöðuna ansi vel í lok viðtalsins: 

„Þetta kemur allt í ljós.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert