Lyfjastofnun ekki á bak við auglýsinguna í Mogganum

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, segir að stofnunin standi ekki …
Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, segir að stofnunin standi ekki á bak við auglýsingu, sem birtist í Morgunblaðinu í dag, þar sem fólk er hvatt til að tilkynna aukaverkanir vegna bólusetninga við kórónuveirunni. Ljósmynd/Samsett

Auglýsing sem birtist í Morgunblaði dagsins þar sem fólk er hvatt til þess að tilkynna aukaverkanir vegna bólusetninga gegn kórónuveirunni er ekki á vegum Lyfjastofnunar. Þetta segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, við mbl.is. 

Hún segir grafalvarlegt að í auglýsingunni birtist upplýsingar um aukaverkanir sem eru óstaðfestar og jafnvel kolrangar, auk þess sem leiðbeiningar um tilkynningu aukaverkana séu alrangar. 

Auglýsingin var keypt af Bjuti ehf., raunverulegur eigandi hvers er kona að nafni Vilborg Björk Hjaltested, og láðist að birta þær upplýsingar vegna mistaka, eins og framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs Morgunblaðsins, Magnús E. Kristjánsson, staðfesti við mbl.is. 

Lyfjastofnun hefur brugðist við rangfærslum, sem koma fram í auglýsingunni, á facebooksíðu sinni.

Lyfjastofnun áréttar að heilsíðuauglýsing í Morgunblaðinu í dag þar sem m.a. er hvatt til þess að tilkynna aukaverkanir...

Posted by Lyfjastofnun on Fimmtudagur, 13. maí 2021

Grafalvarlegt mál

Rúna Hauksdóttir Hvannberg segir að grafalvarlegt sé að auglýsing sem þessi birtist í Morgunblaðinu án þess að komi fram hver standi fyrir henni. Þannig líti út fyrir að Lyfjastofnun, eða annar opinber aðili, standi að henni, sem er alrangt. 

„Þær athugasemdir sem við gerum er auðvitað í fyrsta lagi að það er verið að láta líta út fyrir að þetta séu einhver yfirvöld sem eru að auglýsa þarna, sem er ekki náttúrlega.

Árvakur [útgáfufélag Morgunblaðsins] verður auðvitað að bera einhverja ábyrgð á þessu, vegna þess að þarna er verið að blása upp einhvern hræðsluáróður.“

Ekki réttar leiðbeiningar

Það sem Rúna segir að sé ekki síður alvarlegt er að í auglýsingunni megi finna leiðbeiningar um hvernig skuli tilkynna aukaverkanir. Þær upplýsingar segir hún alrangar og til þess fallnar að tefja fyrir mikilvægum störfum Lyfjastofnunar. 

„Við höfum verið að hvetja almenning og heilbrigðisyfirvöld til þess að tilkynna aukaverkanir við bólusetningum, og það á ekki að gera með þeim hætti sem þarna kemur fram. Þarna er verið að hvetja fólk til að hringja eða senda tölvupóst, það er lítið gagn í því og þá er hætta á því að komi fram rekjanlegar persónuupplýsingar og upplýsingar sem ekki er hægt að skrá. Það á alltaf að nota eyðublaðið sem er á vefsíðu okkar og er tiltölulega einfalt í notkun.“

mbl.is

Bloggað um fréttina