Myndband Eigin kvenna fjarlægt

Skjáskot úr myndbandinu sem um ræðir.
Skjáskot úr myndbandinu sem um ræðir.

Myndband Eigin kvenna, þar sem ýmsir þjóðþekktir einstaklingar lýsa yfir stuðningi með þolendum kynferðisofbeldis, hefur verið tekið tímabundið úr birtingu. 

Edda Falak og Fjóla Sigurðardóttir, stjónendur Eigin kvenna, stóðu að útgáfu myndbandsins sem vakti mikla athygli á samfélagsmiðlum eftir birtingu þess í gær. 

Talsverð umræða skapaðist á samfélagsmiðlum þar sem val þeirra einstaklinga sem í því birtast var gagnrýnt. 

Önnur #metoo-bylgja gengur nú á samfélagsmiðlum og hafa fjölmargir þolendur, og einnig einhverjir gerendur, stigið fram og sagt sína sögu. Bylgjan hófst í tengslum við mál Sölva Tryggvasonar, sem sakaður var um ofbeldi gegn konum. Sölvi hefur síðan fjarlægt allt sitt efni af Youtube, þar sem hann birti hlaðvarp sitt, Podcast með Sölva. 

Edda segir í samtali við Vísi að myndbandið verði birt aftur, hvort sem það verði án einhvers, eins eða að nýir einstaklingar komi inn í það fyrir endurbirtingu.  

Auk Eddu og Fjólu koma fram í myndbandinu Víðir Reynisson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Kristófer Acox, Kristján Helgi Hafliðason, Saga Garðarsdóttir, Eva Mattadóttir, Sara Mansour, Álfgrímur Aðalsteinsson, Arnar Dan Kristjánsson, Donna Cruz, Erna Kristín Stefánsdóttir, Tinna Óðinsdóttir, Kolbrún Birna H. Bachmann, Helga Sigrún, Aron Can, Þorsteinn V. Einarsson, Pálmar Ragnarsson, Kamilla Ívarsdóttir og Magnús Sigurbjörnsson.

Uppfært klukkan 23:02

Magnús Sigurbjörnsson, einn þeirra sem kemur fram í umræddu myndbandi, hefur stigið fram á instagram-síðu sinni og viðurkennt að hafa „farið yfir mörk“. Hann segir ljóst að hann og aðrir karlmenn geti gert betur. Einnig segist hann trúa því einlæglega að umræða undir myllumerkinu #metoo undanfarna daga, hafi fengið „alla til að hugsa“.

Skjáskot/Instagram

Að sama skapi hefur Pálmar Ragnarsson, sem einnig kom fram í umræddu myndbandi, stigið fram og lýst hinu sama, að hann hafi farið yfir mörk kvenna. Á því biðst hann afsökunar, rétt eins og Magnús gerir. Þetta segir Pálmar í færslu á Instagram. 

mbl.is