Markaðsleyfi fyrir 12 ára mögulegt í lok júní

Mögulegt er að markaðsleyfi fyrir bóluefni Pfizer við Covid-19 fyrir …
Mögulegt er að markaðsleyfi fyrir bóluefni Pfizer við Covid-19 fyrir tólf ára og eldri gæti legið fyrir í lok júní. AFP

„Íslenska markaðsleyfið er bara hluti af evrópska markaðsleyfinu hjá Pfizer. Pfizer er komið í umsóknarferli hjá Lyfjastofnun Evrópu fyrir markaðsleyfi fyrir tólf til fimmtán ára krakka og unglinga,“ segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunnar í samtali við mbl.is

Gildandi markaðsleyfi bóluefnis Pfizer við Covid-19 í Evrópu og þar af leiðandi hér á landi nær til sextán ára og eldri.

Í Bandaríkjunum hefur Pfizer fengið markaðsleyfi fyrir börn frá tólf ára aldri.

„Þessi gögn eru í svokölluðu flýtimati og gert er ráð fyrir að niðurstaða gæti legið fyrir í lok júní,“ segir Rúna. 

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar.
Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar. Ljósmynd/Aðsend

Rúna segir markaðsleyfi hér á landi samhangandi við markaðsleyfi í Evrópu og að ekki þurfi að líða langur tími þar til leyfi verði gefið út hér á landi, sé það gefið út í Evrópu. 

„Við höfum bara ákveðið það að gefa út markaðsleyfin alltaf um leið og evrópsku markaðsleyfin koma. Við vorum til að mynda á sama degi þegar Pfizer fékk stóra markaðsleyfið í Evrópu í desember,“ segir Rúna. 

„Við myndum bara fylgja þeim og reyna að klára samdægurs. Fer bara svolítið eftir hvenær sólarhrings ákvörðunin er tekin.“

Pfizer það eina í ferli 

„Pfizer er það eina sem er í ferli eins og er, en það er líklegt að aðrir framleiðendur komi í ferlið líka,“ segir Rúna um umsóknarferlið við leyfum fyrir tólf ára og eldri hjá Lyfjastofnun Evrópu. 

Hún segir Pfizer lengst komna í ferlinu vegna þess að framleiðandinn var sá fyrsti til að fá markaðsleyfi, þar liggi þeirra forskot.

„Þeir eru með stærsta þýðið og tilbúnir fyrstir með gögnin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert