Pfizer fær markaðsleyfi fyrir börn frá 12 ára

Bólusetning með bóluefni Pfizer og BioNTech gæti hafist von bráðar …
Bólusetning með bóluefni Pfizer og BioNTech gæti hafist von bráðar meðal barna á aldrinu 12-15 ára. AFP

Lyfjastofnun Bandaríkjanna hefur heimilað notkun bóluefnis lyfjafyrirtækjanna Pfizer og BioNTech fyrir börn frá 12 ára aldri.

Áður var miðað við 16 ára aldur. Búist er við að lyfjaeftirlitsnefnd Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna komi saman von bráðar til að staðfesta ákvörðunina en að svo búnu gæti bólusetning hafist í aldurshópnum. Efnið verður fyrsta bóluefnið gegn Covid-19 til að fá markaðsleyfi fyrir börn undir 16 ára aldri.

Þar gætu Bandaríkjamenn þó glímt við sama vandamál og hefur komið upp í bólusetningu eldri hópa, þ.e. að sannfæra fólk um að þiggja bóluefnið. Samkvæmt nýrri könnun telur aðeins rétt rúmur helmingur foreldra líklegt að þau muni láta bólusetja börn sín um leið og það stendur til boða.

Alls hafa 45% Bandaríkjamanna fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni gegn veirunni, sé miðað við heildarfjölda íbúa á öllum aldri. Þá er hlutfall fullbólusettra 34%.

Vörnin a.m.k. jafnöflug og í eldri hópum

Ákvörðunin um að heimila notkun bóluefnisins byggist á klínískum tilraunum sem Pfizer og BioNTech hafa ráðist í, þar sem 2.260 þátttakendur á aldrinum 12-15 ára fengu ýmist tvo skammta af bóluefninu eða lyfleysu.

Átján tilfelli veirunnar greindust í hópnum sem fékk lyfleysuna en ekkert meðal þeirra sem fékk bóluefnið, sem bendir til þess að bóluefnið veiti öfluga vörn. Þá reyndust aukaverkanir sambærilegar við aldurshópinn 16-25 ára.

Í mars hófu lyfjafyirtækin tilraunir á efninu í aldurshópnum 5-11 ára og í síðasta mánuði hófust tilraunir á tveggja til fimm ára börnum. Næst stefnir fyrirtækið á tilraunir á börnum allt niður í sex mánaða gömlum.

mbl.is