Smit í H&M á Hafnartorgi

Verslun H&M á Hafnartorgi í miðbæ Reykjavíkur.
Verslun H&M á Hafnartorgi í miðbæ Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

„Því miður höfum við staðfest kórónuveirusmit í búð okkar á Hafnartorgi,“ segir í svari H&M við fyrirspurn mbl.is um smit í verslun fyrirtækisins á Hafnartorgi í Reykjavík. Ekki fengust svör við því hvort starfsmaður eða viðskiptavinur hefði smitast, né upplýsingar um það hvenær smitið kom upp eða hvort þau séu fleiri en eitt. 

Þær upplýsingar verða ekki gefnar upp af „persónuverndarástæðum“.

„Aðaláhersla H&M er að tryggja heilsu og öryggi samstarfsmanna okkar og viðskiptavina, sem og að gera viðeigandi ráðstafanir til þess að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar,“ segir í skriflegu svari frá H&M við fyrirspurn mbl.is. 

Þar kemur fram að starfsfólk sé hvatt til að mæta ekki í vinnu hafi það einkenni Covid-19.

„Það er mikilvægt fyrir okkur að leggja áherslu á það að starfsfólk okkar í verslun fylgdi þeim leiðbeiningum í þessu tilviki. Verslunin okkar er sótthreinsuð og allt starfsfólk fer í skimun.“

Miði í glugga verslunarinnar fyrr í dag.
Miði í glugga verslunarinnar fyrr í dag.

Fyrr í dag var versluninni lokað um tíma en miðað við skilaboð í glugga hennar hefur hún verið opnuð aftur. Ekki fengust svör við því hvort smitin muni hafa áhrif á starfsemi verslunarinnar.

Ekki liggur fyrir hvort H&M á Hafnartorgi sé vinnustaðurinn sem tvö kórónuveirusmit greindust á í gær og sóttvarnalæknir ræddi við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert