150 manna fjöldatakmörkun frá og með þriðjudegi

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ný reglugerð heilbrigðisráðherra um takmarkanir vegna kórónuveirunnar tekur gildi á þriðjudag. Almennar fjöldatakmarkanir verða færðar úr 50 manns í 150 og öllum takmörkunum á skólastarfi verður aflétt. 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir í samtali við mbl.is að afléttingarnar séu afar gleðilegar. 

„Nándarreglan er áfram almennt tveir metrar en verður einn metri á veitingastöðum, sitjandi viðburðum, í skólastarfi og á sund- og baðstöðum,“ segir Svandís. 

Þá verður stigið skref í að aflétta grímuskyldu. 

„Við tökum skref í að létta á grímuskyldu þannig að hún eigi bara við þar sem ekki er hægt að viðhafa nándarregluna og þar sem stórir hópar dvelja saman í lengri tíma eins og á menningar- og íþróttaviðburðum og svo í persónulegri þjónustu; klippingu, nuddi og þess háttar,“ segir Svandís. Grímuskylda verður því ekki lengur í gildi í m.a. verslunum og á vinnustöðum. Heilbrigðisstofnanir fá þá heimild til að gera ríkari kröfur um grímunotkun. 

Á meðal annarra breytinga sem verða næsta þriðjudag er að leyfilegur hámarksfjöldi verði á sund- og baðstöðum og á líkamsræktarstöðvum, hámarksfjöldi áhorfenda og gesta á viðburðum verður 300 í hverju hólfi auk þess sem hlé verða leyfileg, enginn hámarksfjöldi verður lengur í verslunum og afgreiðslutími veitingastaða lengist um klukkustund. Þá verða felldar á brott takmarkanir á skólastarfi svo engar viðbótarreglur munu eiga við um slíkt starf. 

Viðeigandi á björtum degi 

Núverandi reglugerð Svandísar gildir til 26. maí, en hún mun falla úr gildi með nýrri reglugerð á þriðjudag, 25. maí. 

Er nýja reglugerðin áþekk þeirri sem var í gildi síðasta sumar?

„Ég held að þetta sé mjög áþekkt þeim skrefum sem við vorum að taka þá. Það sem er ólíkt er að við erum með aðra stöðu innanlands út af bólusetningum, þetta spilar saman við það og í samræmi þá við afléttingaáætlunina okkar,“ segir Svandís og bætir við að hún vonist til að afléttingarnar verði varanlegar í þetta sinn. 

Svandís segir það afar gleðilegt að hægt sé að grípa til afléttinga. 

„Þetta er svo gleðilegt og það er svo ótrúlega mikill léttir að við getum stigið svona alvöruskref. Það á einstaklega vel við á svona björtum degi,“ segir Svandís. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert