Segja Korpuskóla óviðunandi lausn til lengri tíma

Börn að leik við Fossvogsskóla.
Börn að leik við Fossvogsskóla. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík kalla eftir því að skólastarf Fossvogsskóla verði í heimahverfi skólans eins fljótt og auðið er, til dæmis með færanlegum kennslustofum. Þau lýsa yfir miklum áhyggjum af málefnum Fossvogsskóla.

Ljóst sé að aðgerðir sem farið hefur verið í hafi ekki dugað til að uppræta vandann og að næstu skref skipti öllu máli, bæði þegar kemur að heilsu nemenda og starfsfólks skólans og einnig trausti skólasamfélagsins til borgarinnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum.

Viðgerðir staðið yfir í tvö ár með hléum

Aðstæður í Fossvogsskóla hafa mikið verið til umræðu síðan upp komst um rakaskemmdir og myglu í byggingum skólans. Foreldrar hafa lýst heilsukvillum sem börn þeirra glíma við vegna ástandsins.

Viðgerðir hafa staðið yfir á skólanum í tvö ár með hléum en nú hefur verið tekin ákvörðun um að engin starfsemi verði þar á næsta skólaári á meðan allar þrjár byggingarnar verða gerðar upp.

Skólastarfsemi verði þess í stað í Korpuskóla og hafa börnin þegar hafið nám þar.

Foreldrar brenndir eftir fyrri viðgerðir

Samtökunum þykir hins vegar mikil bjartsýni að gera ráð fyrir að það muni einungis taka eitt skólaár að gera upp byggingarnar. Foreldrar séu brenndir eftir fyrri viðgerðir sem áttu að vera fullnægjandi.

Þau segja það óásættanlega lausn til lengri tíma að börn séu keyrð 10 kílómetra leið með rútu í Korpuskóla í Grafarvogi á hverjum degi. Með því móti sé ekki hægt að uppfylla kennsluskyldu enda fari um 30-40 mínútur á dag í akstur.

Húsnæði Korpuskóla sé auk þess allt of lítið, það sé hannað fyrir 170 nemendur en nemendur Fossvogsskóla séu um 350. Húsnæðið sé auk þess ekki allt í notkun vegna rakaskemmda og bæði börn og starfsfólk hafi sýnt einkenni mygluveikinda eftir flutninginn. Þá lýsa samtökin yfir áhyggjum af starfsmannaveltu og að skólinn missi frá sér kennara vegna álags.

Korpuskóli mun hýsa starfsemi Fossvogsskóla á meðan lausn er fundin …
Korpuskóli mun hýsa starfsemi Fossvogsskóla á meðan lausn er fundin á mygluvandræðum í Fossvogsskóla. Ljósmynd/mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert