„Þetta er bara spurning um tíma“

Eldgos í Geldingadölum á Reykjanesi.
Eldgos í Geldingadölum á Reykjanesi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er bara spurning um tíma,“  segir Gunn­ar Schram, yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­regl­unni á Suður­nesj­um, varðandi útsýnishólinn við Geldingadali en allt bendir til þess að hann verði óbrennishólmi fljótlega. Gunnar segir að allt hafi bent til þess að það myndi gerast strax á sunnudag og því hafi lögreglan gripið til þess ráðs að setja upp lokunarborða til að koma í veg fyrir að fólk færi inn á svæðið og yrði innlyksa. 

Í nótt dró úr rennsli hraunsins í þessa átt og hraunrennslið færðist meðfram hlíðinni. „Þetta er svipað og þegar það myndaðist hrauntunga sama daginn og rann yfir annan varnargarðinn. Seint í gærkvöldi fór af stað hrauntunga í nafnlausa dalnum svo kallaða, eða syðsta Meradalnum, norður með útsýnishólnum að vestari varnargarðinum sem ekki hefur flætt yfir að neinu marki ennþá. Hraunstreymið hefur hingað til ekki verið nægjanlegt til þess en væntanlega gerist það núna,“ segir Gunnar. 

Virða ekki lokanir

Við erum búin að sjá þetta gerast trekk í trekk í þessu gosi og þarna stefndi í að þarna myndi vinsælasti útsýnisstaðurinn breytast í óbrynnishólma,“ segir Gunnar spurður út í breytt hraunrennsli.

Lögregluborðinn var strengdur við skarðið sem hraunið hefði farið um og það vantaði einhvern hálfan hæðarmetra upp á að hraunið næði þangað segir Gunnar í samtali við mbl.is í morgun. 

„Okkur þótti ekki stætt á öðru þannig að fólk væri ekki að festast þarna,“ segir Gunnar en ef þarna hefði myndast eyland hefði ekki verið hægt að koma fólki af svæðinu öðru vísi en með þyrlum og þær fljúga ekki í hvaða veðri og aðstæðum sem er. 

Eitthvað hefur verið um að fólk hafi ekki farið að fyrirmælum lögreglu og segir Gunnar það illa viðráðið. „Fólk er að streyma á svæðið allan sólarhringinn þó svo það sé ekki í miklu mæli yfir nóttina. Við ráðum ekki við að vera með stöðuga viðveru á lokunarpósti sem þessum,“ segir hann. Það myndi kosta viðveru björgunarsveitarfólks og lögreglu. „Við ráðum einfaldlega ekki við það,“ segir Gunnar og bætir við að lokunarborðinn ætti að vera skýr vísbending um hættuna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert