Yfir 62% hafa fengið bólusetningu

mbl.is/Kristinn Magnússon

Bólusetning er hafin hjá 62,5% landsmanna sem eru 16 ára og eldri. Af þeim eru 33,5% fullbólusettir eða 98.882.

Bólusetning er hafin hjá 85.737 manns en 2,2% þjóðarinnar, 16 ára og eldri er með mótefni vegna Covid-19 smits. 

Í lok síðustu viku höfðu 66% kvenna 16 ára og eldri fengið að minnsta kosti eina bólusetningu og 51% karla.
Þrátt fyrir hátt bólusetningarhlutfall meðal fólks á aldrinum 50-79 ára er veiran enn að greinast meðal þessara aldurshópa. Á aldrinum 50-59 ára eru 40,84% fullbólusettir en 44,42% hafa fengið fyrri bólusetningu. Eitt smit er í þessum aldurshópi. Á sjötugsaldri eru 40,84% fullbólusett en bólusetning hafin hjá 52,41%. Þrjú smit eru í aldurshópnum 60-69 ára. Í aldurshópnum 70-79 ára er eitt smit en búið er að fullbólusetja 44,2% og bólusetning er hafin hjá 53,4%. 
Þetta eru þeir aldurshópar þar sem hlutfall bóluefnis AstraZeneca er hæst sem þýðir að þessir aldurshópar fá ekki seinni bólusetningu fyrr en 12 vikum eftir fyrri skammt. Stærsti hluti þessa hóps var bólusettur í lok apríl og byrjun maí þannig að á meðan miðað er við 12 vikur má búast við það þessi hópur verði ekki fullbólusettur fyrr en undir lok júlí. 
AstraZeneca er eina bóluefnið sem svo langur tími líður á milli bólusetninga. Með Pfizer, sem er það bóluefni sem flestir fá, er miðað við þrjár vikur, fjórar vikur eru á milli bólusetninga með Moderna og Janssen þarf aðeins að gefa einu sinni til að ná fram fullri bólusetningu. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert