Byrjað að flæða yfir vestari varnargarðinn

Hér sést hraun flæða yfir vestari varnargarðinn.
Hér sést hraun flæða yfir vestari varnargarðinn. Ljósmynd Veðurstofa Íslands

Byrjað er að flæða yfir vestari varnargarðinn við eldgosið í Geldingadölum. Að sögn Böðvars Sveins­son­ar, nátt­úru­vár­sér­fræðings á Veður­stofu Íslands, gerðist þetta um klukkan 10:20 í morgun. Skömmu áður hafði mælst smá óróapúls á mælum og jafnframt jókst gasútstreymi en engar aðrar breytingar hafa orðið á eldgosinu í morgun og hraunflæðið ekki aukist.

Böðvar segir að þetta hafi ekki komið á óvart enda búist við þessu í einhverja daga. Veðrið er ekki gott á gosstöðvunum og skyggni lélegt.

Myndin er frá því klukkan 10:09 í morgun.
Myndin er frá því klukkan 10:09 í morgun. Ljósmynd Veðurstofa Íslands

Suðaustan 13-18 m/s en dregur úr vindi í kvöld. Austan átt 3-8 m/s á morgun en norðlægari vindur annað kvöld. Gas mun berast í norðvestlægar áttir í dag og gæti orðið vart við á norðvestanverðu Reykjanesi í dag og á morgun en á sunnanverðu Reykjanesi annað kvöld.

Í gær var sett upp ný vefmyndavél við vestari garðinn, rétt í tæka tíð til þess að mynda framhlaupið.

Gönguleið upp á hinn svokallaða Gónhól fór undir hraun í gærmorgun. Frá Gónhóli er gott útsýni yfir eldgosið í Geldingadölum og hafa ófáir landsmenn lagt leið sína þangað undanfarið. Nú er það ekki hægt lengur þar sem hraun hefur umkringt hólinn.

Upplýsingar um hraunflæðið bárust lögreglu rétt fyrir klukkan 9 í gærmorgun. Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, segir rennsli hraunsins hafa verið viðbúið en lögreglan lokaði svæðinu fyrir nokkrum dögum af öryggisástæðum.

„Hraunið var komið upp fyrir hæðina á skarðinu þannig að það var bara tímaspursmál hvenær það myndi byrja að renna þarna yfir,“ segir Rögnvaldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert