„Ég átti skýrt erindi“

Áslaug Arna SIgurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í gærkvöldi í Valhöll eftir fyrstu …
Áslaug Arna SIgurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í gærkvöldi í Valhöll eftir fyrstu tölur úr prófkjöri. mbl.is/Sigurður Unnar

„Þetta var ansi sterkt prófkjör. Ég hlakka til að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í öðru Reykjavíkurkjördæminu,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.

Áslaug Arna hafnaði í öðru sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Hún bauð sig fram í fyrsta sæti í prófkjörinu ásamt Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra sem hafði nauman sigur. Fyrir síðustu alþingiskosningar sat Áslaug í fjórða sæti á framboðslista. Síðan er mikið vatn runnið til sjávar.

„Þetta var hörð en skemmtileg barátta og það munaði að lokum einungis 182 atkvæðum á fyrsta sætinu, það verður ekki mikið tæpara í svona stóru prófkjöri,“ segir Áslaug.

Áslaug kveðst stolt af sinni baráttu og þakklát fyrir þann mikla stuðning sem henni var sýndur í fyrsta sætið og að fá að leiða annað Reykjavíkurkjördæmið.

Eru úrslitin vonbrigði fyrir þig?

„Auðvitað, ef maður stefnir að einhverju þá langar mann að ná því. Á sama tíma sýnir þetta fyrst og fremst að ég átti skýrt erindi í það sæti sem ég óskaði eftir og mikinn stuðning í það. Ég get ekki annað en verið sátt við þessa góðu kosningu.“

Breytt ásýnd Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík

Nokkrar sviptingar voru í prófkjörinu gagnvart sitjandi þingmönnum. Brynjar Níelsson hefur lýst því yfir að hann muni ekki þiggja sætið sem honum féll í skaut í prófkjörinu og var Sigríður Á. Andersen ekki á meðal efstu átta frambjóðenda.

Spurð um hvað megi lesa í niðurstöður prófkjörsins segir Áslaug að þær sýni styrkleikann sem felist í prófkjörum. „Það er tækifæri fyrir fólk til að velja fólk, þarna eru sterkir stjórnmálamenn í bland við nýja,“ segir Áslaug.

Þá segir Áslaug að ekki sé hægt annað en að gleðjast yfir því að þrjár ungar konur séu á meðal efstu fjögurra frambjóðenda í prófkjörinu. Hún gleðst yfir glæsilegri kosningu Diljár Mistar og Hildar Sverrisdóttur sömuleiðis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert