Hlutirnir þurfa að skýrast á næstu tímunum

Birgir Ármannsson, hér ásamt Loga Einarssyni.
Birgir Ármannsson, hér ásamt Loga Einarssyni. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Yfir línuna er staðan sú að það hefur ekkert samkomulag náðst um afgreiðslu mála fyrir þinglokin,“ segir Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, spurður um stöðu mála á Alþingi.

Þing­flokks­for­menn funduðu tvisvar í gær um þinglok, án niður­stöðu. Aftur var fundað í hádeginu í dag.

„Það eru alls konar samtöl í gangi og fundir, bæði formlegir og óformlegir. Á þessari stundu eru ekki komnar neinar hreinar línur um það hvaða mál verða kláruð og hver ekki,“ segir Birgir í samtali við mbl.is.

Gætum lokið þessu á mjög skömmum tíma

Hann bendir á að leysa þurfi stór álitamál áður en hægt verði að ákveða hvaða mál geti farið í gegnum þingið.

„Það eru ýmis mál,“ svarar Birgir, spurður um helstu álitamálin. „Hálendisþjóðgarðurinn er auðvitað eitt þeirra, en svo eru fjölmörg önnur mál sem er ágreiningur um eða eru flókin með öðrum hætti.“

Hann segist að minnsta kosti búast við að þinginu ljúki í þessum mánuði.

„En við gætum lokið þessu á mjög skömmum tíma ef málin fengju einhverja niðurstöðu sem hægt er að sætta sig við.“

Eitt skref áfram og tvö skref aftur á bak

Þingstörfin geti samt sem áður jafnvel dregist fram eftir næstu viku.

„Ef okkur tekst ekki að greiða úr þessu á næstu klukkutímum.“

Þannig að þetta veltur allt á næstu tímunum?

„Hlutirnir þurfa að skýrast dálítið á næstu klukkutímunum, ef við eigum að eiga möguleika á að klára til dæmis fyrir helgi. En auðvitað má segja að úr því að það er búið að taka starfsáætlun þingsins úr sambandi, þá er sú tímapressa alla vega farin.“

Þinginu átti annars að ljúka á morgun.

„Um leið og forsætisnefnd ákvað það í gær þá urðu tímasetningarnar miklu sveigjanlegri í þeim efnum. En satt að segja þá er þetta þannig að stundum þokumst við eitt skref áfram og svo lendum við í því að taka tvö skref aftur á bak.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert