Skila AstraZeneca-skömmtunum í júlí

16 þúsund skammtar af AstraZeneca fengust að láni í apríl.
16 þúsund skammtar af AstraZeneca fengust að láni í apríl. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við gerum ráð fyrir því að skila AstraZeneca-skömmtunum til Noregs síðar í júlí,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í samtali við mbl.is.

Íslendingar fengu um 16 þúsund skammta af bóluefninu að láni frá Noregi í lok apríl og voru þeir allir nýttir á sínum tíma. Í samningnum á milli landanna kemur fram að Ísland þurfi að skila skömmtunum fyrir lok júní en er nú ljóst samkvæmt Svandísi að það verði í júlí.

„Við fáum ríflega 20 þúsund skammta af Astra núna í júní og stefnum að því að geyma þá fyrir seinni bólusetningu í júlí fyrir þá sem eru að bíða eftir seinni bólusetningu.“ Svandís segir þó að það dugi ekki fyrir alla sem eigi eftir að fá seinni bólusetningu en fleiri skammta er að vænta í júlí.

Skil á Janssen ekki tímasett

Byrjað var að bólusetja í gær með Janssen-bóluefninu en um 24 þúsund skammtar fengust að láni frá Svíþjóð. Svandís segir það hins vegar ekki vera tímasett hvenær þeim skömmtum verði skilað.

„Við byrjuðum að nota þessa Janssen skammta í gær. Þannig að þetta breytir í raun og veru mjög miklu fyrir okkur núna á loka sprettinum,“ segir Svandís og bætir við að mjög ánægjulegt sé að fá bóluefnið frá Svíum.

Svandís segir að ekki sé gert ráð fyrir fleiri lánum á bóluefnum frá öðrum löndum í bili.

„Við stefndum á í byrjun árs að hafa boðið þorra þjóðarinnar fyrri bólusetningu og en nú stefnir í að við náum að bjóða öllum fyrri bólusetningu fyrir 25. júní,“ segir Svandís en um 74% íbúa landsins yfir 16 ára hafa annaðhvort smitast af veirunni eða fengið bóluefni.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert