Streymið liggur mest í austur

Gosvirknin hefur breyst nokkuð síðustu vikur og stefnir allt í …
Gosvirknin hefur breyst nokkuð síðustu vikur og stefnir allt í að gosið þróist yfir í dyngjugos. mbl.is/Árni Sæberg

Hraunflæði frá eldgosinu í Geldingadölum virðist nú að miklu leyti leiða út í austari hluta Meradala, auk þess að hækka núverandi hraunlag bæði í Geldingadölum og Meradölum. Minna flæði er hins vegar niður í Nátthaga. Þá er kvikustraumurinn að skera sig niður í gígnum og líklegt er að sírennsli verði komið í stað hraungusa sem hafa verið undanfarið.

Þetta segir Þor­vald­ur Þórðar­son, pró­fess­or í eld­fjalla­fræði við Há­skóla Íslands. Hann fór í vettvangsferð í gær og skoðaði meðal annars Meradali og austurhluta hraunsins. Líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd sem tekin var í morgun hefur hraunið teygt sig lengra til austurs (til vinstri á myndinni) síðustu daga, en um er að ræða austurhluta Meradala.

Ljósmynd tekin úr flugi í morgun, en horft er til …
Ljósmynd tekin úr flugi í morgun, en horft er til suðurs. Gígurinn er hægra megin á myndinni, syðri og nyrðri hlutar Merardala fyrir miðju, en austari hlutinn til vinstri. Þangað virðist mesti straumurinn núna streyma. Ljósmynd/Sigurbjörg

Til samanburðar er hægt að skoða kort á map.is og sjá þar hvernig hraunjaðarinn var fyrir um 10 dögum og meta hvernig þróunin hefur verið síðan, en haka þarf í „Jarðeldar á Reykjanesi“ í valstikunni.

Nokkur gangur í jaðrinum að austan

„Það var töluverð virkni þarna. Jaðarinn á helluhrauninu í austurhluta Meradala var allur virkur og nokkur gangur í honum,“ segir Þorvaldur. Nú séu aðstæður þannig að hraunið sé búið að fylla alveg upp allan botninn á Meradölum og hraunbreiðan farin að þykkna ríflega. Þannig sé þykkt hraunsins 10-12 metrar í dalnum, en 2-3 metrar við jaðrana.

„Meradalirnir eru alþakktir helluhrauni,“ segir Þorvaldur. „Þetta er jafnt yfir allan dalinn og það segir manni að þetta er allt að tjakkast upp.“ Bendir hann á að þegar það fyllist svona inn í kjarna hraunsins með auknu hraunmagni haldist flatt yfirborð og hækkunin sé nokkuð jöfn og þétt.

Allt stefnir í átt að dyngjugosi

Þorvaldur hefur áður sagt að allt stefni í að gosið verði svokallað dyngjugos, en þó verði hrauntjörn fyrst að myndast yfir gígnum og flæðið að vera í hraunrásum frekar en á yfirborðinu. Segir hann að enn virðist allt stefna í þessa átt. Hraunkvikan sé hægt og örugglega að skera sig niður í gígnum og byggja yfir útflæðið. Þá muni koma til sírennslis frekar en hraungusa.

Með breytingu sem þessari segir Þorvaldur að mun minna hitatap verði úr hrauninu. Nefnir hann sem dæmi að hraunkvika sem sé í lokaðri rás og vel einangruð tapi aðeins 1°C á hverjum kílómetra. Þegar um opna rás sé að ræða sé hitatapið um 100°C á hvern kílómetra. Því myndist alla jafna helluhraun þegar kvikan sé komin í lokaða rás en apalhraun í opnum rásum, en hraunkvika storknar í kringum 150°C.

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands.
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Augljóst að þetta er að taka við mestu“

Spurður út í hvort líklegt sé að hraunflæðið færi sig alfarið úr Nátthaga, þar sem mestar áhyggjur hafa verið af að hraunið gæti á endanum farið á mannvirki, segir Þorvaldur að óvíst sé hvernig flutningskerfin í hraunkvikunni muni þróast, en breytingar þar geti verið nokkuð hraðar.

Í dag virðist mikil kvika fara í Geldingadali, í að tjakka hraunið upp þar, og svo í norður- og austurhluta Meradala, en einnig eitthvað smá áfram í suðurhluta Meradala og niður í Nátthaga. „En það er augljóst að þetta er að taka við mestu,“ segir hann um austurhlutann.

mbl.is