Áralangri þingsetu Steingríms lokið

Steingrímur J. Sigfússon, fráfarandi forseti Alþingis og þingmaður.
Steingrímur J. Sigfússon, fráfarandi forseti Alþingis og þingmaður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Síðasta þingfundi þessa kjörtímabils hefur verið slitið og var þingi frestað þegar klukkuna vantaði um tuttugu mínútur í tvö í nótt. Þing verður rofið síðar í sumar og kosið til Alþingis þann 25. september. 

Þingfundir kvöldsins voru þannig síðustu þingfundir þeirra þingmanna sem ekki gefa áframhaldandi kost á sér til þingsetu.

Meðal þeirra er Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, fyrrum ráðherra, stofnandi og fyrrum formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. 

Steingrímur hefur setið á Alþingi frá árinu 1983, í alls 38 ár, fyrst fyrir Alþýðubandalagið, þá þingflokk óháðra og frá árinu 2003 Vinstri hreyfinguna – grænt framboð.

Stórum hluta ævi Steingríms hefur verið varið í sölum Alþingis.
Stórum hluta ævi Steingríms hefur verið varið í sölum Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Steingrímur var landbúnaðar- og samgönguráðherra á árunum 1988–1991, fjármála-, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra árið 2009 og fjármálaráðherra árin 2009–2011.

Steingrímur gegndi einnig embætti efnahags- og viðskiptaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra árin 2011–2012 og var atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra árin 2012–2013.

Í forsetastóli hefur Steingrímur setið sem fjórði varaforseti Alþingis árin 2013–2016. Sem forseti Alþingis árin 2016–2017 og sem fyrsti varaforseti Alþingis árið 2017. Þá var Steingrímur starfsforseti eftir þingkosningar árið 2017 og aftur forseti Alþingis síðan 2017.

Síðustu ræðu Steingríms má sjá hér að neðan.

mbl.is