Í annarlegu ástandi á slysadeild

Klukkan hálfþrjú í nótt var óskað eftir aðstoð lögreglu á slysadeildina í Fossvogi vegna manns í annarlegu ástandi sem lét öllum illum látum á bráðamóttökunni. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangaklefa þar til ástand hans batnar. 

Fram kemur í dagbók lögreglu að skömmu eftir klukkan 20 hafi starfsfólk hótels í Austurbæ óskað eftir aðstoð lögreglu við að vísa tveimur hótelgestum út. Gestirnir voru í annarlegu ástandi og höfðu verið til vandræða. Þeir yfirgáfu hótelið eftir viðræður við lögreglu. 

Skömmu fyrir klukkan 18 var tilkynnt um mann, sem barði í mannlausa bíla. Maðurinn var farinn þegar lögregla kom á vettvang og fannst ekki þrátt fyrir leit. 

Skömmu eftir klukkan 18 var síðan tilkynnt um eld í bifreið við Arnarnesbrú. Slökkvilið kom á vettvang og slökkti eldinn og er bifreiðin sem um ræðir mikið skemmd. Engin slys urðu á fólki.

Klukkan rétt tæplega 20 var tilkynnt um olíumengun í Hafnarfjarðarhöfn. Hafnarstarfsmenn og slökkvilið hófu strax hreinsunaraðgerðir vegna mengunarinnar. 

Klukkan 23 var tilkynnt um slasaða konu sem féll á göngu við Flekkudalsfoss. Lögregla, slökkvilið, björgunarsveitir og þyrla Landhelgisgæslunnar voru kölluð út. Konan var flutt með þyrlu Gæslunnar á bráðamóttöku Landspítalans. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert