Bólusetning að hafast en 828.822 skammtar eftir

Frá bólusetningu í Laugardalshöll.
Frá bólusetningu í Laugardalshöll. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mikill meirihluti þeirra sem á að bólusetja gegn Covid-19 hér á landi hafa fengið fyrsta skammt af bóluefni eða 238.814 einstaklingar. Í öllum aldurshópum þeirra sem á að bólusetja, fyrir utan yngsta aldurshópinn, 12-15 ára, er hlutfall þeirra sem hafa lokið eða hafið bólusetningu komið vel yfir 60%. 

Sem stendur hefur einungis verið tekin ákvörðun um að bólusetja börn á aldrinum 12-15 ára ef þau eru í áhættuhópum. 

Einungis 11% af skömmtum Moderna hafa verið notaðir

Langflestir skammtar hafa verið gefnir af bóluefni Pfizer en næstflestir af bóluefni AstraZeneca. Fæstir eru skammtarnir frá Moderna, eða um 34.000 talsins. Það eru ekki nema um 11% af þeim 294.000 skömmtum sem Ísland á að fá frá fyrirtækinu. 

Alls hafa 355.178 skammtar af bóluefnum gegn Covid-19 verið gefnir hér á landi en íslensk stjórnvöld hafa gert samninga upp á 1.184.000 skammta af bóluefnum við fimm lyfjafyrirtæki, þar af eitt sem enn hefur ekki fengið markaðsleyfi fyrir sínu bóluefni. 

Bólusetning gengur vel og er ekki langt í að allir þeir sem hafa hug á að fá bólusetningu hafi fengið í það minnsta sína fyrstu sprautu. Samt sem áður á enn eftir að nota 828.822 bóluefnaskammta af þeim sem stjórnvöld hafa samið um. Eins og áður hefur komið fram hyggjast íslensk stjórnvöld gefa þá bóluefnaskammta sem Íslendingar þurfa ekki að nota. 

mbl.is