Nokkrum fatagámum verður skipt út

Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands.
Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Nokkrum fatagámum Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu þar sem dæmi eru um að fólk hafi farið ofan í gámana verður skipt út í sumar fyrir gáma með sérstökum slám yfir skúffuna sem opna þarf til að koma fötum ofan í gámana. Þetta segir Krist­ín S. Hjálm­týs­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Rauða kross­ins, í samtali við mbl.is. 

Kristín veit ekki til þess að tilfellin þar sem fólk festist í fatagámum séu fleiri en tvö, það er tilfellið aðfaranótt fimmtudags og harmleikurinn í Kópavogi síðasta vetur. „Við viljum tryggja að þetta sé sem öruggast og það er mikilvægt að fólk fari eftir merkingum á gámum Rauða krossins sem og öðrum fyrirmælum,“ segir hún.  

Ítarleg skoðun fór fram á gámunum í vetur og uppfylla þeir alla öryggisstaðla að sögn Kristínar. „Þeir teljast öruggir þessi gámar. Þeir eru öryggis- og Evrópuvottaðir auk þess sem við merkjum hvern gám með varnaðarorðum á nokkrum tungumálum.“ 

Kristín segir ástæðu þess af hverju fólk fer ofan í gámana ekki ljósa en bendir á neyðaraðstoð, svo sem fatagjafir, sem Rauði krossinn býður upp á. „Til dæmis hjá Frú Ragnheiði og með fatakortum. Þá er hægt að nálgast ódýr föt í tveimur verslunum Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu; á Hlemmi og í Mjódd.“ 

Ekki liggur fyrir hversu mörgum gámum verður skipt út en það mun skýrast síðar í sumar að sögn Kristínar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert