Tók 30-100 ár fyrir Skjaldbreið að myndast

Eldgos í Geldingadölum.
Eldgos í Geldingadölum. mbl.is/Árni Sæberg

Allt bendir til þess að eldgosið í Geldingadölum sé dyngjugos. Dyngjugos leiða oft af sér dyngjufjöll en þau þurfa að standa ansi lengi til þess að mynda stórar dyngjur á borð við Skjaldbreið, sem tók um 30-100 ár að myndast. Þótt gosið í Geldingadölum sé dyngjugos er alls ekki þar með sagt að það muni vara svo lengi, raunar er ansi erfitt að spá fyrir um það. 

Þetta segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur við mbl.is.

Hann segir þó einnig að ekki þurfti að leita langt aftur í tíma til þess að finna langvarandi gos. Eldgosið í Surtsey 1963 varði í þrjú og hálft ár. 

Toppurinn á rúmlega 1.000m háa Skjaldbreið.
Toppurinn á rúmlega 1.000m háa Skjaldbreið. mbl.is/RAX

„Þetta er náttúrlega búið að standa yfir núna í þrjá mánuði og hefur haldist með sama hætti og við vitum ekkert hvenær endirinn verður og sjáum engin merki um hann. Og þá verður þetta svona í þessum stíl, og það er notað dyngjugos, það hugtak er notað um þessi hægfljótandi gos sem standa í langan tíma.

Það er samt ekki þar með sagt að það verði stórar dyngjur, það mynda ekki öll dyngjugos einhverjar dyngjur, eins og Skjaldbreið eða eitthvað svoleiðis – það er alveg hinn endinn á „spektrúminu“,“ segir Magnús.

Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Háskóla Íslands.
Magnús Tumi Guðmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Háskóla Íslands. Ljósmynd/Almannavarnir

Fjall gæti myndast ef gosið stendur í einhver ár

Magnús segir að til þess að stórar dyngjur myndist verði gos að standa yfir ansi lengi. Hann segir að ef eldgosið í Geldingadölum standi yfir í svipaðan tíma og Surtseyjargosið 1963, þá muni kannski myndast fjall eða hraunfláki. 

„Síðasta gosið sem stóð lengi, það var Surtseyjargosið sem stóð yfir í þrjú og hálft ár, þannig að það þarf ekki að leita lengra aftur í tímann en það. Og ef þetta stendur með svipuðum hætti og núna, í þrjú og hálft ár, þá yrði það álíka stórt og Surtseyjargosið.“

Og þá myndi myndast þarna eitt heljarinnar fell, já, eða fjall, eða hvað?

„Já, jú jú, kannski. Eða þá allavega stærðarinnar hraunfláki, það fer bara alveg eftir því hvað þetta stendur lengi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert