Dáður og hataður og engum líkur

Óttar og Guðni eru klárir í Þingvallagönguna.
Óttar og Guðni eru klárir í Þingvallagönguna.

„Nú er fyrsta Þingvallaganga sumarsins í þjóðgarðinum á fimmtudagskvöld 24. júní og hefst við upplýsingamiðstöðina á Hakinu klukkan 20.00,“ sagði Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sem mun leiða gönguna annað kvöld.

Hann kvaðst vera orðinn vanur því að að fara í eina slíka göngu á hverju sumri. Venjulega hefur hann talað um þjóðþekktar hetjur úr fornöld og sagt sögu þeirra í Þingvallagöngunum, en nú ber nýrra við.

„Nú ætla ég að segja frá Jónasi Jónssyni frá Hriflu. Einhverjum magnaðasta stjórnmálamanni Íslandssögunnar fyrr og síðar,“ sagði Guðni. „Jónas var gríðarlegur framkvæmdamaður og bæði dáður og hataður og engum manni líkur. Hann var fyrir rest felldur sem formaður Framsóknarflokksins, þessi mikli og sigursæli maður. Hvar sem þú ferð um á Íslandi liggja verk hans, allir héraðsskólarnir og meira að segja Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er eitt af hans verkum. Jónas var byltingarmaður í Íslandssögunni.“

Stóra bomban og læknamafían

Óttar Guðmundsson geðlæknir mun fylgja Guðna í göngunni á annað kvöld og flytja erindi á Lögbergi sem hann kallar „Stóra bomban, geðveikin og læknamafían“. Þeir Óttar og Guðni hafa áður gengið saman um Þingvelli í Þingvallagöngum. Margir muna þegar þeir gengu þar um með höfðingjanum Gissuri Þorvaldssyni jarli og rifjuðu upp Sturlungaöld og átök hennar. Óttar var þar fyrir hönd Sturlunga og Guðni fyrir hönd Haukdælanna. „Það var rimma hávær á milli okkar þá,“ sagði Guðni.

„Óttar ætlar að segja frá því þegar Jónas lenti í átökum við lækna landsins. Þeir ætluðu að dæma hann geðveikan eins og frægt er. En Jónas sigraði í þeirri orrustu og setti fram Stóru bombu þar sem hann varði sig. Það voru einhver mögnuðustu átök allra tíma,“ sagði Guðni.

Átökin snerust m.a. um að skipa átti Jónas Kristjánsson, sem stofnaði Heilsustofnunina í Hveragerði, sem lækni í Keflavíkurumdæmi. En Jónas skipaði hins vegar Sigvalda Kaldalóns, lækni og tónskáldið snjalla, í embættið. Þess vegna mun Karlakór Kjalnesinga taka þátt í Þingvallagöngunni annað kvöld og syngja lög Sigvalda Kaldalóns. Einnig mun Guðrún Eggertsdóttir, yngsta barnabarn Jónasar frá Hriflu, flytja minningarbrot um afa sinn við Þingvallabæinn eða kirkjuna.

Búið að semja um gott veður

„Þetta er frjálst og opið og allir geta komið með í þessa göngu. Við getum tekið á móti 300 manns og þarna er víðfeðmi. Þetta er stutt ganga og skemmtileg leið. Jónas er farinn til himnaríkis og búinn að semja við Guð almáttugan um að það verði gott veður,“ sagði Guðni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert