Kvörtunum fjölgað um 75%

Kvörtunum einstaklinga og aðstandenda til Landlæknis hefur fjölgað um 75% á fimm ára tímabili og að meðaltali fjölgar kvörtunum um 16% á milli ára. Þetta kemur fram í ársskýrslu embættis landlæknis fyrir árið 2020. Í ársskýrslunni er fjallað um þetta viðburðaríka ár, helstu viðfangsefni og aðaláherslur starfsáætlunar.

Í skýrslunni kemur fram að árið 2020 voru 10.535 óvænt atvik skráð í íslenskri heilbrigðisþjónustu en það er svipaður fjöldi og árið undan, þá voru skráð 10.612. Með óvæntu atviki er átt við óhappatilvik, mistök, vanrækslu eða önnur atvik sem geta valdið sjúklingi tjóni eða hefðu getað valdið sjúklingi tjóni.

Kvartanir einstaklinga eða aðstandenda.
Kvartanir einstaklinga eða aðstandenda. Skjáskot úr skýrslunni.

Algengustu skráð atvik á heilbrigðisstofnunum á landinu öllu árið 2020 voru byltur/föll, alls 5.343 talsins eða 50,72% skráðra atvika. Önnur algeng skráð atvik tengdust lyfjameðferð, eða samtals 1.502 talsins á landsvísu, 14,26% skráðra atvika.

Alvarlegum óvæntum atvikum fjölgað

Skráðum alvarlegum, óvæntum atvikum hefur fjölgað stöðugt síðastliðin ár og voru þau 60 árið 2020 en voru 53 árið 2019. Þá segir í skýrslunni að líklega sé hér um bætta skráningu á atvikum að ræða vegna vitundarvakningar en ekki raunfjölgun á óvæntum alvarlegum atvikum en þó sé ekki hægt að fullyrða um það.

Dæmi um atvik, sem embætti landlæknis hafði til rannsóknar á árinu 2020, eru andlát í kjölfar byltu, andlát eða alvarlegir fylgikvillar í kjölfar aðgerðar eða meðferðar, sjálfsvíg og atvik tengd lyfjaávísunum og lyfjagjöfum. Flest alvarleg óvænt atvik, sem tilkynnt hafa verið til embættisins, hafa átt sér stað á sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum.

Fjöldi tilkynninga um alvarleg atvik til embættis landlæknis árin 2016-2020.
Fjöldi tilkynninga um alvarleg atvik til embættis landlæknis árin 2016-2020. Skjáskot úr skýrslunni

Fleiri eftirlitsmál komu upp á árinu 2020 en fyrri ár, alls 51 mál. Tíu þessara mála lauk á árinu 2020 en tilgangur rannsóknar og málsmeðferðar embættisins í eftirlitsmálum miðar að því að tryggja gæði og öryggi heilbrigðisþjónustu. Í skýrslunni kemur fram að á tímabilinu 2016-2020 afsöluðu átta heilbrigðisstarfsmenn sér starfsleyfi sínu, í samræmi við 16. gr. laga um landlækni og lýðheilsu.

Hægt er að nálgast ársskýrsluna í heild sinni hér.

mbl.is