Sakfelldur fyrir líkamsárás fyrir utan skemmtistað

Maðurinn var dæmdur í eins mánaðar fangelsi, skilorðsbundið til tveggja …
Maðurinn var dæmdur í eins mánaðar fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára. Ljósmynd/Hanna Andrésdóttir

Landsréttur staðfesti í dag sakfellingu manns í héraðsdómi fyrir líkamsárás með því að hafa ásamt þremur öðrum aðilum veist að öðrum manni með ítrekuðum spörkum svo að hann féll til jarðar, fyrir utan ótilgreindan skemmtistað.

Verður manninum gert að sæta fangelsi í einn mánuð skilorðsbundið í tvö ár auk þess að greiða miskabætur að fjárhæð 400.000 krónur, óskipt með hinum þremur ákærðu.

Árásin varð fyrir framan skemmtistað þann 2. september 2017 og náðist á myndskeið, fyrir framan fjölda vitna. Við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti var hluti af framburði brotaþola fyrir héraðsdómi, þar sem hann lýsti því sem gerðist í myndskeiðinu. 

Vitni skýrði frá því fyrir héraðsdómi að ákærði og fleiri hefðu sparkað í líkama brotaþola auk þess sem hann hafi verið kýldur, meðákærði hafi átt upphafshöggið en hinir tveir hafi komið á eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert