Fimmtugasti rampurinn vígður

Við vígslu fyrsta rampsins þann 14. apríl. Fimmtugasti rampurinn verður …
Við vígslu fyrsta rampsins þann 14. apríl. Fimmtugasti rampurinn verður vígður á eftir kl. 14. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sannkölluð gleði verður í miðbæ Reykjavíkur í dag þegar fimmtugasti rampur verkefnisins Römpum upp Reykjavík verður tekin í gagnið en hann markar að helmingur markmiðsins um hundrað rampa er náð.

„Við erum nú að undirbúa vígslu sem verður klukkan 14. Hún verður nú sennilega frekar stutt, svona korter. Þá hefst þessi götuhátíð sem við erum með“, segir Þorleifur Gunnlaugsson, annar stjórnenda verkefnisins Römpum upp Reykjavík.

 „Við verðum með Sirkus Íslands, andlitsmálningu, töframann, kandífloss og ýmislegt sem er aðallega ætlað fyrir börnin en svona börn á öllum aldri eins og má segja,“ segir hann en hátíðin hefst sem áður segir klukkan 14 og stendur yfir í um tvo tíma að Laugarvegi 7 í miðbæ Reykjavíkur.

Götugleði verður við vígslu fimmtugasta rampsins í verkefninu Römpum upp …
Götugleði verður við vígslu fimmtugasta rampsins í verkefninu Römpum upp Reykjavík í dag. Ljósmynd/Aðsend

Verkefnið Römpum upp Reykjavík er verkefni sem snýst um bætt aðgengi fólks í hjólastólum að verslunum og þjónustu. Verkefnið fór af stað 11. mars og fyrsti rampurinn var vígður þann 14. apríl. Markmiðið er að 100 rampar verði teknir í notkun fyrir 10. mars á næsta ári og því er gleðiefni að verkefnið sé komið svo langt á leið á aðeins rúmum þremur mánuðum.

Flóknari og dýrari verkefni framundan

Ramparnir 50 eru allir staðsettir á Laugarvegi og því ljóst að aðgengi fyrir hreyfihamlaða hefur verið af skornum skammti. Nú verður aftur á móti farið í flóknari verkefni. „Nú erum við farin að huga að allavega 20-30 stöðum sem eru mun flóknari og við þurfum að finna meira út úr og verða kostnaðarsamari,“ segir Þorleifur en næstu verkefni snúa aðallega að veitingarstöðum.

„Hugsaðu þér að geta ekki hitt vini sína því það er ekki aðgengi á staðnum,“ segir Þorleifur og lýsir hvernig skert aðgengi verði oft til félagslegrar einangrunar fyrir hreyfihamlaða, þá sér í lagi fólk í yngra kantinum.

Aðspurður hvort það verði ekki fagnað þegar þeir vígja þann hundraðasta svarar Þorleifur því játandi. „Þá verður húllumhæ get ég lofað þér,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert