Harma skráningu aðila í auglýsingu fyrir mistök

Óskar Bjartmarz, framkvæmdastjóri lögregluforlagsins.
Óskar Bjartmarz, framkvæmdastjóri lögregluforlagsins. mbl.is/Árni Sæberg

Lögregluforlagið harmar að nokkur fyrirtæki, sveitarfélög og samtök, skráð í auglýsingu á vegum félagsins sem birtist í Morgunblaðinu fyrr í vikunni, hafi verið skráð í auglýsinguna fyrir mistök. Unnið hafi verið að því að hafa samband við forsvarsmenn þeirra til að biðjast afsökunar og viðtökur hafi oftar en ekki verið góðar. 

Fram kemur í yfirlýsingu frá lögregluforlaginu að þeir aðilar sem rötuðu fyrir mistök í auglýsinguna verði ekki krafðir um greiðslu fyrir hana. 

Umrædd auglýsing hefur vakið talsverð viðbrögð, meðal ann­ars fyr­ir að leggja nafn Rauða kross­ins í leyf­is­leysi við skila­boð sem sam­tök­in segja valda hræðslu frek­ar en að ýta und­ir for­varn­ir, hvað varðar neyslu kanna­bis­efna.

Sama aug­lýs­ing hef­ur birst á hverju ári en ekki vakið sömu viðbrögð og nú. Skýrist það vænt­an­lega af því að af­glæpa­væðing neyslu­skammta kanna­bis hef­ur verið um­deilt stjórn­mála­legt viðfangs­efni á þessu ári og því mikið í umræðunni.

Í yfirlýsingu lögregluforlagsins kemur einnig fram að athugasemdir hafi komið fram við að aðilum sem ákváðu að vera með í auglýsingunni hafi ekki verið ljóst hvaða texti yrði hafður í henni. Slíkar athugasemdir eigi rétt á sér og séu teknar alvarlega af hálfu útgáfuaðila og muni félagið framvegis leitast við að upplýsa styrkveitendur betur um efni þeirra auglýsinga sem birtar eru hverju sinni. 

Í yfirlýsingunni kemur einnig fram að Íslenska lögregluforlagið sé í eigu Nordisk Kriminalkrønike ApS sem sé svo í eigu sjóðsins LEWHF. Upprunalegi tilgangur félagsins hafi verið útgáfa norrænna sakamála og útgáfa fyrir Íþróttasamband lögreglumanna en bókaútgáfunni var hætt 2009. Áhersla forlagsins sé nú að styrkja Íþróttasamband lögreglumanna og styðja þannig við íþróttir lögreglumanna á Íslandi. Stofnun lögregluforlagsins var að frumkvæði Íþróttasambands lögreglumanna á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert