90% með mótefni eftir að allir hafa fengið boð

Allir Íslendingar 16 ára og eldri hafa hlotið boð í …
Allir Íslendingar 16 ára og eldri hafa hlotið boð í bólusetningu gegn Covid-19. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nú hafa allir Íslendingar 16 ára og eldri fengið boð í bólusetningu gegn Covid-19. Samkvæmt tölum covid.is eru um 90% Íslendinga með mótefni gegn Covid-19, inni í þeirri tölu eru þau rúm 2% sem hafa fengið sýkingu af völdum veirunnar. 

„Ég hef grun um að hluti af þessum 10% sem ekki hafa þegið boð sé fólk sem búi erlendis en sé enn skráð með heimili hér samkvæmt Þjóðskrá Íslands,“ segir Ragn­heiður Ósk Er­lends­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri hjúkr­un­ar hjá Heilsu­gæslu höfuðborg­ar­svæðis­ins. Hún fagnar þó þessum 90% innilega.

„Til dæmis ef þú ert útlendingur og hefur verið að vinna hérlendis. Þegar ég skrolla yfir listann sé ég nefnilega ansi mörg erlend nöfn, ég hef hins vegar ekki hugmynd um hvort fólkið sé hérlendis. Svo er náttúrulega alltaf einhver smá prósenta sem vill ekki bóluefni og svo eru ábyggilega aðrir sem hafa ekki haft heimangengt,“ segir Ragnheiður og bætir við að þessi 10% séu því örugglega bland í poka. 

Ragnheiður segir að þeir sem hafa af einhverjum ástæðum ekki komist í bólusetningu geta skráð sig í gegnum netspjallið á heilsuvera.is. „Fólk fær þá Janssen af því við getum ekki verið að teygja okkur langt inn í sumarið með endurbólusetningar með Pfizer,“ segir Ragnheiður og bætir við að enn séu til um fjögur þúsund skammtar af Janssen fyrir þá sem skrái sig. „Það væri frábært að koma því út.“

Lítill dagur í dag

Í gær var bólusett með Pfizer og voru 700 skammtar keyrðir í lok dags á Suðurnesin vegna ónógrar eftirspurnar. „Það gekk ótrúlega vel að bruna með efnið suður í endurbólusetningar fyrir fólk sem átti að koma í dag,“ segir Ragnheiður og bætir við að náðst hafi að koma skömmtunum út á klukkutíma.

„Það voru um tuttugu manns sem mættu í Laugardalshöll eftir að við vorum farin með skammtana og þeir koma því í dag að fá bólusetningu, við áttum smá afgang. Ég geri því ráð fyrir að við bólusetjum ekki meira með Pfzier eftir daginn í dag nema í aðra bólusetningu.“

„Í dag erum við að bólusetja langveik börn og fólk sem hefur ekki íslenska kennitölu, þannig að við erum með nokkra litla hópa í dag,“ segir Ragnheiður en börnin fá Pfizer og aðrir Janssen bóluefnið. 

Stærsta vikan fram undan

Í næstu viku verður svo ein stærsta bólusetningarvikan hingað til þar sem verður farið í endurbólusetningu með Pfizer og AstraZeneca, alls um 35 þúsund skammta. „Þetta verður alveg svakalegur endasprettur og ég vona bara að við höldum hana út.“

Á þriðju­dag­inn verður bólu­efni Pfizer gefið í end­ur­bólu­setn­ingu, alls um sex þúsund skammt­ar. 

Á miðviku­degi og fimmtu­degi verða svo allt að tólf þúsund skammt­ar af bólu­efni Astra Zeneca gefn­ir hvorn dag­inn. Þá eru ótald­ir skammt­arn­ir af Jans­sen sem gefn­ir verða sam­hliða. 

„Eftir það verður þetta bara létt með nokkrum þriðjudögum þar sem verður gefið Pfizer.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert