Tíminn til að endurnýja kynni við gamla vini

„Ég hef ekki hitt mikið af mínum vinum núna síðastliðið …
„Ég hef ekki hitt mikið af mínum vinum núna síðastliðið eitt og hálft ár og ég held að það sé ágætt að endurnýja þau kynni,“ segir hann en bætir við að hann ætli ekki að hætta alfarið að passa sig. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason var glaður í bragði þegar mbl.is náði tali af honum í Safnahúsinu í dag. Tilefni sé til að gleðjast með sínum nánustu og endurnýja kynni. Þá sé hann bjartsýnn á framhaldið en á sama tíma skuli ekki fagna happi of snemma. Covid sé ekki búið þrátt fyrir merkan áfanga innanlands.

„Ætlar þú í samkvæmi í kvöld?“

„Nei nei, ekki í kvöld. Ég gleðst bara með mínu fólki og mínum vinum. Þetta er góður, skemmtilegur og ánægjulegur dagur en ég held bara áfram mínu lífi,“ segir hann og bætir við að nú sé tími til kominn til að hitta gamla vini og félaga.

„Það er ánægjulegt að geta gert það, losað aðeins um það. Ég hef ekki hitt mikið af mínum vinum síðastliðið eitt og hálft ár og ég held að það sé ágætt að endurnýja þau kynni,“ segir hann en bætir við að hann ætli ekki að hætta alfarið að passa sig.

„Covid er ekki búið þó að staðan sé mjög góð hér,“ segir Þórólfur. „Við höfum náð þessum merka og góða áfanga og eigum svo sannarlega að gleðjast yfir því en faraldurinn er enn í mikilli útbreiðslu erlendis og við erum að sjá ný afbrigði sem við vitum ekki alveg hvað ætla að gera, segir hann og heldur áfram: 

„Þetta verður svona næstu mánuði, við þurfum að passa okkur örlítið en vonandi náum við bara að viðhalda þessum árangri sem við höfum náð með samheldnu átaki.“

Enn langt í land erlendis

Aðspurður hvort nú, eftir 60 minnisblöð, hafi hann skrifað sitt síðasta minnisblað svarar hann því neitandi. „Nei ég held ekki, ég held að ég muni skrifa fleiri minnisblöð en kannski mun ég skrifa eitt lokaminnisblað þegar ég held að þetta sé búið,“ segir hann.

Hvort hann sé á förum svarar hann:

„Ég er ekkert á förum en það fer auðvitað að styttast í minn starfstíma og ég þarf auðvitað að huga að því eins og aðrir. Covid er ekki búið og ég hef sagt það áður, að ég mun allavega ekki hverfa af sjónarsviðinu þar til ég sé fyrir endann á þessu Covid dæmi, segir hann og bætir við: „Allavega ekki af fúsum og frjálsum vilja, gæti vel verið að það gerist einhvern vegin öðruvísi ég veit ekki.“

„Við þurfum klárlega að ná meiri útbreiðslu í heiminum á bólusetningu. Það eru aðeins sex prósent heimsbyggðarinnar bólusett. Það er ennþá töluvert í land á heimsvísu og þó að við séum komin upp á ströndina hér á Íslandi, og við eigum að gleðjast yfir því, þá megum við ekki gleyma okkur á verðinum,“ segir hann að lokum.

mbl.is