Skriða sleit í sundur háspennustreng

Frá skíðasvæðinu í Tindastóli. Myndin er tekin árið 2018.
Frá skíðasvæðinu í Tindastóli. Myndin er tekin árið 2018. Ljósmynd/Viggó Jónsson

Aurskriður féllu á skíðasvæðið í Tindastóli á Sauðárkróki í gærkvöldi með þeim afleiðingum að rafmagnsstrengur á svæðinu slitnaði og voru íbúar rafmagnslausir í stutta stund. 

„Væntanlega hefur [strengurinn] slitnað í skriðum sem fóru þarna niður í gærkvöldi. Það er verið að kanna aðstæður í dag og hvað er hægt að gera í þessu,“ segir Þórir Ólafur Halldórsson á svæðisvakt RARIK á Norðurlandi.

Ekki hefur verið staðfest hvar strengurinn er slitinn en rafmagni sló út um miðnætti í nótt. Hvergi er rafmagnslaust á svæðinu sem stendur. 

Háspennustrengurinn liggur upp að sendum Neyðarlínunnar en þeir eru nú keyrðir á varaafli.

Feykir greindi fyrst frá.

Fleiri skriður féllu á Norðurlandi í gærkvöldi. Í Varmahlíð er enn í gildi rýming vegna skriðuhættu hvað varðar nokkur hús á svæðinu.

mbl.is