Lýsa yfir hættustigi vegna vatnavaxta í ám og vötnum

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra hefur ákveðið …
Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra hefur ákveðið að lýsa yfir hættustigi vegna vatnavaxta í ám og vötnum á svæðinu. Ljósmynd/Lögreglan

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra hefur ákveðið að lýsa yfir hættustigi vegna vatnavaxta í ám og vötnum á svæðinu. Þessar miklu leysingar eru til komnar vegna mikils lofthita. Gríðarlegir vatnavextir eru þessa dagana í landshlutanum sem getur og hefur valdið því að bæði vegir og brýr rofna.

Þetta kemur fram í tilkynningu. 

Ljósmynd/Lögreglan

Íbúar og vegfarendur eru beðnir um að vera ekki nálægt ám og vötnum sem eru í miklum vexti. Þá er fólk á Akureyri sérstaklega beðið um að vera ekki á ferðinni í kringum Glerá. Vegurinn við Þverá í Eyjafirði rofnaði í gærkvöldi og unnið er að lagfæringu hans. Vegurinn innan við Illugastaði hefur rofnað og er lokaður. Einnig eru skemmdir við brúna yfir Fnjóska á móts við Illugastaði og hún lokuð vegna þessa. Mestu vatnavextir eru í Eyjafjarðará og Fnjóská og er fólk beðið um að fara varlega við árnar, að því er segir í tilkynningunni. 

Ljósmynd/Lögreglan


Eins og fram kemur á heimasíðu Veðurstofu Íslands þá er áfram spáð miklum leysingum í hlýindum víða um land. Má því búast við áframhaldandi hárri vatnsstöðu og miklu rennsli í ám og lækjum, sér í lagi þar sem hlýtt er í veðri og snjór enn til fjalla. Ferðafólk er hvatt til að sýna aðgát við óbrúaðar ár á hálendinu, segir enn fremur. 

Fram kemur á vef Vegagerðarinnar, að töluverðar skemmdir hafi orðið á vegamannvirkjum á Norðurlandi vegna gríðarlegra vatnavaxta síðustu dægur. Vegur í Fnjóskadal er í sundur og lokað á tveimur öðrum stöðum, víðast er hægt að fara aðrar leiðir þótt taka þurfi krók. Nokkrar skemmdir orðið á rofvörnum.

Í Fnjóskadal er vegurinn í sundur og unnið að því að verja brú skammt frá Illugastöðum.

Eyjafjarðarbraut eystri er lokuð á brúnni við Möðruvelli, að því er segir í frétt Vegagerðarinnar. 

„Við Þverá á Eyjafjarðarbraut eystri grefst frá steyptum stokki en umferð er um hjáleið yfir eldri brú, en einungis léttari umferð, mjólkurbíllinn þarf að taka á sig lengri krók. Það má reikna með að nokkurn tíma muni taka að gera við þegar sjatnar og því verður þörf á þessum hjáleiðum næstu viku eða vikur.

Þá hafa skemmdir orðið víða á rofvörnum enda má reikna með að þessi flóð núna séu með þeim mestu sem verða við þessar aðstæður og gerast líklega eingöngu á 50-100 ára fresti.

Vegagerðin metur aðstæður og fylgist með og verður unnið að viðgerðum eins hratt og mögulegt er, en mislanga tíma mun taka að koma vegakerfinu í samt lag og fer eftir alvarleika skemmdanna sem ekki eru komnar í ljós að fullu hversu umfangsmiklar eru,“ segir enn fremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert