Hiti í náttúrulaug of mikill fyrir ferðamenn

Hægra megin á myndinni má sjá náttúrulaugina og fossinn sem …
Hægra megin á myndinni má sjá náttúrulaugina og fossinn sem rennur út í hana. Reykjará rennur við hlið laugarinnar og geta ferðamenn leitað þangað til að kæla sig niður. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Náttúrulaugin á Laugavöllum á Laugavalladal hitnaði gífurlega í sólinni fyrir austan um helgina. Talið er að hitastig vatnsins sem rann þar út í hafi verið í kringum 45 gráður og þurftu ferðamenn að leita í ána sem rann við hlið laugarinnar til að kæla sig niður.

Að sögn Þorvalds P. Hjarðar, eins af landeigendum að Laugavöllum, er lækurinn sem rennur út í laugina orðinn varasamur. Hitastigið í lauginni er yfirleitt á bilinu 36-37 gráður en auk heita fossins rennur þar einnig út í kaldur lækur sem á að tempra hitastigið. Undanfarna daga hefur þó heita loftslagið fyrir austan raskað þessu jafnvægi og er laugin nú svipuð og heitustu pottar.

„Snjórinn sem átti að halda kalda læknum gangandi kláraðist í þessum hlýindum. Það hefur verið passlega mikið kalt vatn til að halda þessu í kjörhita en nú þegar kalda vatnið er orðið heitt þá ruglast kerfið. Hér eru engar blöndunargræjur til að koma í veg fyrir svona,“ segir Þorvaldur.

Telur hann þetta vandamál ekki hafa komið upp í fyrra í ljósi þess að hlýindin voru ekki jafn samfelld og í sumar. Segir hann þó hitann ekki koma að of mikilli sök en Reykjará rennur við hlið laugarinnar og getur fólk leitað nær ánni fyrir þægilegra hitastig.

Ferðamenn sjást kæla sig í Reykjará.
Ferðamenn sjást kæla sig í Reykjará. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Vinna að uppbyggingu staðarins

Laugavellir hafa verið vinsæll ferðamannastaður á Austurlandi enda fjölbreytilegt um að litast í nágrenninu. Landeigendur standa nú fyrir mikilli uppbyggingu á svæðinu til að það standist straum ferðamanna. Er nú meðal annars búið að koma fyrir göngubrú, göngustígum, bílaplani og fjallaklósetti svo eitthvað sé nefnt. Næst á dagskrá er að koma upp upplýsingaskilti, halda áfram framkvæmdum við gerð göngustíga og viðgerðum á gamla býlinu.

Laugin sjálf er til komin af náttúrunnar hendi en Þorvaldur segir staðarhaldara þó fara ár hvert til að hreinsa upp úr henni sand og annað til að koma í veg fyrir að hún fyllist. Hefur það verið gert frá því Þorvaldur man eftir sér. Telur hann ekki nauðsynlegt að standa að frekari úrbótum við laugina sjálfa enda mikilvægt að gæta þess að hún missi ekki náttúrulegan sjarma sinn. 

mbl.is