Sæludögum í Vatnaskógi aflýst

Sæludagar í Vatnaskógi.
Sæludagar í Vatnaskógi. Ljósmynd/KFUM

Sæludögum í Vatnaskógi, sem áttu að fara fram um verslunarmannahelgina, hefur verið aflýst annað árið í röð. 

Skógarmenn KFUM, sem reka sumarbúðir í Vatnaskógi og eru forsvarsmenn hátíðarinnar, segja í tilkynningu að í ljósi nýjustu samkomutakmarkana stjórnvalda sé það mat stjórnarinnar að ekki sé lengur forsvaranlegt að halda fyrirhugaða fjölskylduhátíð.

Í tilkynningunni segir:

„Við erum þakklát þeim fjölmörgu aðilum sem hafa undanfarna daga staðið í ströngu við undirbúning hátíðarinnar sem og þeim sem höfðu tryggt sér þá aðgöngumiða á hátíðina. Skógarmenn munu að sjálfsögðu að fullu endurgreiða aðgöngu- og gistikostnað sem þátttakendur hafa greitt en eru einnig þakklát þeim sem myndu vilja styðja við starfsemina.“

mbl.is