Aldrei fleiri sýni greind – unnið fram á nótt

Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítala.
Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítala. mbl.is/Árni Sæberg

Um 5.400 kórónuveirusýni voru greind á sýkla- og veirufræðideild Landspítala í gær. Það er langmesti fjöldi sem deildin hefur nokkurn tímann greint á einum degi en hún ræður við um fjögur til fimm þúsund sýni daglega. Tækin tvö sem sjá um greiningu kosta um 80 milljónir króna hvort og tekur sex mánuði að fá slíkt tæki til landsins. 

Landspítali fékk nýlega nýtt greiningartæki, Cobas 8800, til landsins en fyrir var eitt slíkt tæki á spítalanum. Spítalinn hafði ekki óskað eftir fleiri tækjum en heilbrigðisráðuneytið tekur fyrir beiðnir um tækjakaup sem þessi.

„Við áttum ekki von á því að þörfin yrði svo mikil á þessum tíma. Við héldum eins og aðrir að staðan yrði allt önnur og betri,“ segir Karl. G. Kristinsson, yfirlæknir sýkla- og veirufræðideildar Landspítala.

Frá greiningu sýna á sýkla- og veirufræðideild Landspítala.
Frá greiningu sýna á sýkla- og veirufræðideild Landspítala. mbl.is/Árni Sæberg

Vilja helst ekki kalla fólk inn úr fríum

„Í gær greindum við 5.400 sýni. Það er langmesti fjöldi sem við höfum greint nokkurn tímann. Það var unnið fram á nótt. Við ráðum við svona 4-5 þúsund sýni á dag, ef það fer yfir þann fjölda fer að verða mjög erfitt fyrir starfsmenn að sinna því og við gætum þurft að kalla fólk inn úr sumarfríum, sem við viljum helst ekki þurfa að gera.“

Er til skoðunar að fá fleiri svona greiningartæki? 

„Það hefur verið minnst á það en í rauninni er afhendingartíminn sex mánuðir svo það er ekki víst að það henti best. Svo viljum við kannski ekki vera með öll eggin í sömu körfunni þannig að ef við ætluðum að kaupa annað væri kannski sniðugt að vera með aðra gerð.“

Fólk getur vænst þess að fá niðurstöðu samdægurs

Í gær komu tölur yfir smit mánudagsins ekki fram fyrr en síðdegis. Það var vegna þess að ekki náðist að greina öll sýni mánudagsins samdægurs.

Karl segist vona að öll sýnin sem tekin verða í dag verði greind samdægurs. Almennt getur fólk átt von á því að fá niðurstöðu úr skimun sama dag og það fer í skimun.

„Nema ef sýnin eru tekin seint eða koma seint til okkar. Þá getur verið að svarið komi ekki fyrr en næsta morgun. Þá er tækið að keyra fram í nóttina og þá erum við ekki með starfsmenn um miðja nótt heldur um morguninn til þess að fara yfir svörin og fullgilda þau áður en þau verða send út.“

Karl segir að ekki hafi verið skoðað að kalla til aðstoð Íslenskrar erfðagreiningar með greiningu sýna til þessa. 

Greiningartækið er engin smásmíði og tekur sitt pláss.
Greiningartækið er engin smásmíði og tekur sitt pláss.

Versti tími ársins fyrir stöðu sem þessa

Eins og áður segir hefur sýkla- og veirufræðideildin ekki þurft að kalla starfsmenn úr sumarfríum vegna ástandsins en hliðrað hefur verið til á milli eininga vegna þess.

„Þetta er versti tími ársins fyrir svona stöðu, það eru flestir í sumarfríi út þessa viku og í síðustu viku, svo er dálítið mikið í næstu viku,“ segir Karl. 

Aðspurður segir Karl að fleiri greiningartæki séu ekki endilega lausnin til þess að takast á við núverandi stöðu. 

Þyrftu líka fleiri starfsmenn og meira pláss

Ef þið hefðuð annað greiningartæki, gætuð þið þá skimað enn fleiri, t.d. á landamærunum?

„Þá þyrftum við að vera með fleiri starfsmenn líka, svo erum við búin að koma fyrir fjölda tækja þannig að það fer að skorta pláss líka,“ segir Karl. 

Eins og áður segir tekur heilbrigðisráðuneytið fyrir beiðnir um tækjakaup sem þessi. 

„Ég held að það skorti ekkert á vilja þar, þetta er bara spurning um það hvað er rétt að gera í stöðunni,“ segir Karl.

mbl.is