Óvissa um alvarleg veikindi óbólusettra

Alma D Möller á upplýsingafundi almannavarna í morgun.
Alma D Möller á upplýsingafundi almannavarna í morgun. Ljósmynd/Almannavarnir

Upplýsingar vantar að utan um það hversu miklar líkur eru á því að fólk sem er óbólusett og smitast af kórónuveirunni veikist alvarlega.

Þetta sagði Alma D. Möller landlæknir á upplýsingafundi Almannavarna, spurð í ljósi þess hversu Delta-afbrigðið er skætt og að um 190 manns eru óbólusettir og í einangrun hérlendis.

Miðað við fyrri afbrigði veirunnar þurfti að leggja 5% inn á spítala. Vísbendingar eru frá Englandi, Skotlandi og Kanada um að innlagnir séu algengari af völdum Delta-afbrigðisins. Alma sagðist telja að hlutfallið nú sé að lágmarki 5% en jafnvel hærra.

Sérstakar reglur fyrir óbólusetta?

Spurð hvort það komi til að greina að vera með sérstakar reglur hérlendis fyrir óbólusetta sagði Alma að sumar þjóðir hafi farið þá leið, eins og Ísrael. Þar geti óbólusettir ekki farið í bíó og á veitingastaði nema að vera nýbúnir að fara í Covid-próf. Hún sagði málið þó ekki hafa komið til neinnar umræðu hér á landi. 

Spurð hvað Landspítalinn ráði við mikinn fjölda sjúklinga sagði hún að verið væri að undirbúa komu fleiri sjúklinga. Núna er smitsjúkdómadeildin eingöngu notuð fyrir Covid-sjúklinga en þar eru 17 rými. Áætlanir eru uppi um að fleiri deildir taki við sjúklingunum eins og í fyrri bylgjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert