Þyrla Landhelgisgæslunnar notuð í umferðareftirlit

mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrir utan röðina sem myndaðist við Hvalfjarðargöng fyrr í dag þá hefur umferðin gengið hnökralaust fyrir sig í allan dag, segir Sævar Þór Sigmundsson, vaktstjóri i umferðardeild Lögreglunnar. Þyrla Landhelgisgæslunnar er notuð í umferðareftirlit á Norðurlandi.

„Þetta hefur allt gengið mjög vel, eina uppákoman var þetta mál með stóra bílinn sem bilaði í Hvalfjarðargöngunum,“ segir Sævar.

Hann segir kálið ekki sopið þótt í ausuna sé komið, en slysalaus dagur hingað til engu að síður. „Því miður geta slysin alltaf orðið, en við vonum það besta og reynum bara að vera sýnilegir þannig að fólk sjái og viti að við séum á ferðinni, sem við erum.“

Samstarf lögreglu og Landhelgisgæslunnar

Sævar segir einnig að lögreglan á Akureyri sé í samstarfi við Landhelgisgæsluna búin að sinna sýnilegu umferðareftirliti á þyrlu gæslunnar í dag. „Þá lendir þyrlan bara á völdum stöðum, oft stöðum sem taldir eru hættulegri en aðrir, og svo er mældur hraði ökumanna með „laser“.“

Er þetta bara gert til þess að auka sýnileika?

„Já, þetta er bara hluti af þessu átaki okkar, er varðar sýnilegt umferðareftirlit.“

Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF GRO.
Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF GRO. Árni Sæberg

Hann segir einhverja hafa verið stoppaða fyrir of hraðan akstur þrátt fyrir að almennt sé erfiðara að keyra hratt í þetta þungri umferð. Alltaf séu einhverjir sem keyra of hratt. Að lokum biðlar Sævar til almennings að sýna þolinmæði í umferðinni og að þeir, sem ætli að fá sér í glas, hugi að því að leggja ekki of snemma af stað daginn eftir.

mbl.is