Dánarorsök liggur ekki endanlega fyrir

Maðurinn lést í haldi lögreglu á aðfaranótt sunnudags.
Maðurinn lést í haldi lögreglu á aðfaranótt sunnudags. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skýrslutökur hófust í gær í máli mannsins sem lést í haldi lögreglu aðfaranótt sunnudags. Embætti héraðssaksóknara tók yfir rannsókn málsins á sunnudag líkt og kveðið er á um í lögum. 

„Skýrslutökur hófust í gær og eins og staðan er núna þá höldum við bara áfram að safna upplýsingum um málið, taka skýrslur og þess háttar,“ segir Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari í samtali við mbl.is.

Spurð hvort notast verði við myndefni við rannsókn málsins svo sem búkmyndavélar lögreglu eða eftirlitsmyndavélar segir Kolbrún: „Já við náttúrlega reynum ávallt að safna því myndefni sem til er, það er að segja ef myndefni er til staðar.“

Bíða niðurstöðu um dánarorsök

Í tilkynningu frá lögreglu á sunnudagsmorgun var sagt að maðurinn hefði farið í hjartastopp og endurlífgunartilraunir ekki borið árangur. Kolbrún segir þó ekki hægt að segja nákvæmlega til um hvað leiddi til þess að maðurinn fór í hjartastopp. Ekki fyrr en dánarorsök liggi endanlega fyrir í kjölfar krufningar.

„Það getur tekið svolítinn tíma að fá endanlega dánarorsök staðfesta. Stundum fáum við þó bráðabirgðaniðurstöðu nokkuð fljótlega, en það er aðstæðubundið hverju sinni,“ segir Kolbrún.

Hún segist þá ekki vilja tjá sig neitt sérstaklega hvað varðar dánarorsökina fyrr en hún liggur endanlega fyrir.

Varðandi nafn mannsins sem lést segir Kolbrún venjuna ekki vera að embætti saksóknara gefi upp nafn hins látna. „Við þurfum bara að skoða það hvort fjölskylda mannsins óski eftir því.“

Kolbrún segir rannsóknina í höndum embættis héraðssaksóknara, eins og lög …
Kolbrún segir rannsóknina í höndum embættis héraðssaksóknara, eins og lög kveða á um. mbl.is/Árni Sæberg

Lögreglan rannsakar ekki sjálfa sig

Með hvaða hætti kemur lögreglan að málinu, þar sem maðurinn deyr í haldi hennar?

„Það er gert ráð fyrir því í lögum að tilkynnt sé um svona alvarleg atvik til okkar strax, sem var gert og við tókum við rannsókninni strax á sunnudag. En allar stoðdeildir lögreglu, til að mynda, starfa í okkar umboði. Þannig að ákveðnar stoðdeildir gætu komið að. Til dæmis tæknideild og tölvurannsóknadeild vegna búkmyndavéla.“

Hún bendir þó á og ítrekar að embætti héraðssaksóknara fari með stjórnartaumana í rannsókn málsins. „Við sjáum um rannsóknina og ákveðum hvað skal gera, þetta flyst alltaf beint til okkar.“

mbl.is