Losna úr einangrun í lok vikunnar

Hjúkrunarheimilið Grund.
Hjúkrunarheimilið Grund. mbl.is/Ómar Óskarsson

Tveir smitaðir heimilismenn í austurhúsi á hjúkrunarheimilinu Grund losna úr einangrun í vikulokin. Þeir hafa verið einkennalausir allan tímann.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Á Minni-Grund greindust fyrr í vikunni tveir heimilismenn með smit. Annar einkennalaus, hinn með nokkur einkenni.

Skimun útsettra heimilismanna er lokið og skimun viðeigandi starfsmanna stendur yfir. Allnokkrir starfsmenn eru í sóttkví.

Heimsóknarbann á Grund er í gildi í það minnsta fram yfir helgi.

Enginn heimilismaður á Ási greinst með smit

Seinni skimun 33 heimilismanna og þeirra starfsmanna Áss sem voru settir í sóttkví í síðustu viku fer fram í dag. Einungis greindist eitt smit starfsmanns í síðustu viku. Enginn heimilismaður hefur greinst með smit, að því er segir í tilkynningunni.  

Áfram verður lokað fyrir heimsóknir á hjúkrunarheimilið en gera má ráð fyrir afléttingu heimsóknarbanns að fengnum niðurstöðum seinni skimunar.

mbl.is