Allt að verða klárt í Laugardalshöll

Ragn­heiður Ósk Er­lends­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri hjúkr­un­ar hjá Heilsu­gæsl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu,
Ragn­heiður Ósk Er­lends­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri hjúkr­un­ar hjá Heilsu­gæsl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu, mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er allt að verða klárt en við vorum einmitt að undirbúa höllina í dag,“ segir Ragn­heiður Ósk Er­lends­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri hjúkr­un­ar hjá Heilsu­gæsl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu, í samtali við mbl.is en bólusetningar hefjast aftur í næstu viku í Laugardalshöll.

„Við vorum að setja upp alla vagnanna en það var sem betur fer ekki búið að ganga frá öllum stólunum. Þetta var því tiltölulega lítið mál fyrir okkur að græja þetta í dag.“

Þeim verða boðnir örvunarskammtur sem fengu Janssen fyrir a.m.k. 28 dögum og þeir sem eiga eftir að fá seinni skammt af Pfizer fá boð í hann. Þau sem eru með mótefni eftir Covid-19 sýkingu og hafa fengið Jansen örvunarskammt þurfa ekki að mæta í annan Pfizer örvunarskammt að sögn Ragnheiðar.

Bólusetja 32 þúsund manns á fjórum dögum

„Við erum búin að senda út boð fyrir mánudaginn og þriðjudaginn. Þannig að þetta er allt að gerast," segir Ragn­heiður.

Á fjórum dögum verða bólusett um 32 þúsund manns með Moderna og Pfizer í bland eftir fyrningu á skömmtunum að sögn Ragnheiðar.

Þá gerir hún ráð fyrir að ráðist verði í að gefa íbúum á hjúkrunarheimilum og þeim sem eru eldri en 80 ára örvunarskammta í næstu viku.

Útbúa höllina sérstaklega fyrir börnin

Í dag var klárað að bólusetja síðustu starfsmenn skólanna með örvunarskammti. 24. og 25. ágúst fá síðan börn á aldrinum 12 til 15 ára Pfizer.

Ragnheiður nefnir að hvorki börnin né forráðamenn þeirra fá strikamerki sent í síma heldur eigi fólk að koma samkvæmt skipulagi sem birtist á vef heilsugæslunnar og verður sent í gegnum mentor. Bólusetningin verði skráð með því að gefa upp kennitölu barnsins. 

„Við erum að útbúa höllina þannig að það verði gott fyrir börn að koma. Bæði að foreldri geti setið við hlið þess og líka verða fullt afdrepum ef börnin eru kvíðin eða hrædd. Við óskum bara eftir að foreldrar og börn láti vita ef þau eru hrædd við komu. Við erum að reyna að gera þetta eins vel og við getum fyrir þennan hóp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert