Líklegt að afganskir starfsmenn NATO fái hér skjól

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, segir íslensk yfirvöld ætla …
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, segir íslensk yfirvöld ætla að taka þátt í að finna afgönsku starfsfólki NATÓ skjól. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, segir íslensk yfirvöld ætla að taka þátt í að finna afgönsku starfsfólki Atlantshafsbandalagsins skjól í samræmi við yfirlýsingu utanríkisráðherra bandalagsins sem samþykkt var í dag.

Leggur Atlantshafsbandalagið nú kapp á að flytja ríkisborgara bandalags- og samstarfsríkja frá Afganistan. Þá einnig afganska ríkisborgara sem eru í sérstakri hættu, sérstaklega þau sem starfað hafa fyrir bandalagið. 

„Við erum virkir þátttakendur í Atlantshafsbandalaginu sem þýðir að við tökum þátt í því að koma þessu fólki í skjól,“ segir Guðlaugur.

Útfærsla á því liggur ekki fyrir en líklega verður niðurstaðan sú að afgönskum starfsmönnum bandalagsins verði deilt á milli aðildarríkjanna og þá mun Ísland standa sína pligt í því, að sögn Guðlaugs.

Á þessari stundu er þó verið að einbeita sér að brottflutningi fólksins frá Afganistan og ferlið ekki komið svo langt að fyrir liggi ákvörðun um næstu skref. 

Stærsti flóttamannavandi frá seinni heimsstyrjöldinni

Guðlaugur bendir á að starfsmenn NATO séu aðeins mjög fámennur hópur fólks, og örlítið brot af þeim Afgönum sem þurfa á mannúðaraðstoð að halda. 

„Fyrir þessa atburði þurfti rúmlega helmingur þjóðarinnar mannúðaraðstoð, eða um tuttugu milljónir manna. Þá voru tvær til þrjár milljónir á flótta innan Afganistan og annað eins fyrir utan. Í byrjun þessa árs, fyrir atburðina, bættust 400.000 manns við þann fjölda,“ segir Guðlaugur. 

Alþjóðasamfélagið stendur nú þegar frammi fyrir stærsta flóttamannavanda sem sést hefur frá seinni heimsstyrjöldinni, útskýrir Guðlaugur. Ástandið sem skapast hefur í Afganistan með yfirtöku talíbana bætist því ofan á þann vanda. 

Flóttamannanefnd fundaði í dag um viðbrögð Ísland og skilaði inn minnisblaði til félagsmálaráðherra sem mun bera það undir ríkisstjórn. 

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra sagði í samtali við mbl.is að það væri al­veg skýrt að tekið verði á móti fleiri hæl­is­leit­end­um vegna ástands­ins sem nú rík­ir í Af­gan­ist­an. 

Fjarfundur NATO

Guðlaugur Þór tók í dag þátt í fjarfundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins um Afganistan. Á fundinum var farið yfir þá alvarlegu stöðu sem upp er komin vegna valdatöku talibana.

Í yfirlýsingu frá Atlantshafsbandalaginu segir að bandalagið muni leggja mat á þann lærdóm sem það geti dregið af málinu.

Kallað er eftir því að nýir valdhafar í Afganistan virði alþjóðlegar skuldbindingar landsins, mannréttindi og réttindi kvenna, barna og minnihlutahópa. Tryggja þurfi óheftan aðgang mannúðaraðstoðar.  

Guðlaugur segir að framundan sé mikið starf á vettvangi Atlantshafsbandalagsins. 

„Menn þurfa líka að ræða hvernig þessi sviðsmynd kom upp, en þetta er ekki sú sviðsmynd sem dregin var upp þegar ákvarðanir voru teknar.“ Á hann þá við ákvörðun Bandaríkjanna og annarra að draga herlið sitt til baka frá Afganistan eftir tuttugu ára viðveru.

Í yfirlýsingu frá Atlantshafsbandalaginu segir að bandalagið muni leggja mat …
Í yfirlýsingu frá Atlantshafsbandalaginu segir að bandalagið muni leggja mat á þann lærdóm sem það geti dregið af málinu. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Starfsmenn NATO, ekki íslenska ríkisins

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneyti Íslands er haft eftir Guðlaugi að aðstoð alþjóðasamfélagsins byggist á ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og hlutverk Atlantshafsbandalagsins undanfarin ár hafi verið að veita þjálfun og ráðgjöf á sviði öryggis- og varnarmála. 

„Sú staða sem upp er komin í landinu er því áfall og hætt við að kastað verði á glæ þeim framförum sem orðið hafa í landinu á þessum tíma.“

Aðkoma Íslands, sem aðildarríki Atlantshafsbandalagsins, að aðgerðum í Afganistan snerist fyrst og fremst um að senda þangað sérfræðinga á sviði upplýsingamála og jafnréttismála, að sögn Sveins. 

Þannig voru engir Afganar ráðnir sérstaklega af íslenska ríkinu til að sinna friðargæslustörfum. Það er því aðeins um að ræða starfsmenn bandalagsins á skrifstofum þess í Kabúl. 

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tók í dag þátt …
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tók í dag þátt í fjarfundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins um Afganistan. Ljósmynd/Stjórnarráðið
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert