Gísli: Hvorki eðlilegt né skynsamlegt

Gísli segir önnur lögmál gilda um framkvæmdastjóra KSÍ heldur en …
Gísli segir önnur lögmál gilda um framkvæmdastjóra KSÍ heldur en stjórn sambandsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gísli Gíslason, starfandi formaður KSÍ, telur hvorki eðlilegt né skynsamlegt að stjórn KSÍ, sem situr nú til bráðabirgða, taki afstöðu til þess hvort Klara Bjartmarz eigi að víkja úr starfi framkvæmdastjóra KSÍ.

Hann útilokar þó ekki að ný stjórn taki málið til umfjöllunar.

Gísli harmar þá atvik sem varð í höfuðstöðvum KSÍ fyrr í dag, þar sem lögregla var kölluð til vegna manns sem hafði í hótunum við starfsmenn sambandsins.

Vonar að stjórn og starfsfólk fái vinnufrið

Nú var lögreglan fyrr í dag kölluð til, í höfuðstöðvar KSÍ, vegna öryggisógnar. Hver eru viðbrögð þín við því?

„Við höfum náttúrulega flest ef ekki öll orðið fyrir einhvers konar áreiti en mismiklu. Það er auðvitað alvöru mál þegar ekki er hægt að hafa hemil á þeim sem eru ekki vel þenkjandi í garð fólks sem sinnir þessum störfum sem sjálfboðaliðar. Við höfum von um að það skili sér og að það verði vinnufriður fyrir starfsfólk og þá sem ætla að ljúka skyldum sínum í september,“ segir hann. 

Lögregla var kölluð til í húsakynni KSÍ í Laugardalnum fyrr í dag samkvæmt heimildum mbl.is en þangað mætti einstaklingur sem hafði uppi hótanir við starfsfólk sambandsins. Yfirgaf maðurinn höfuðstöðvarnar sjálfviljugur.

„Verður að gera af heiðarleika og sanngirni“

Borið hefur á háværum kröfum þess efnis að Klara víki frá störfum eftir að Guðni Bergsson, formaður KSÍ, og stjórn KSÍ sögðu af sér í kjölfar frásagna þess efnis að sambandið hefði þaggað niður kynferðisbrot landsliðsmanna.

Gísli telur ólíklegt að sitjandi stjórn taki ákvarðanir sem geta haft áhrif inn í framtíðina þar sem hún situr til bráðabirgða en boðað hefur verið til aukaþings hjá KSÍ sem fram fer eftir fjórar vikur.

„Það gilda önnur lögmál um stjórn sem er kjörin á þingi og svo aftur um ráðna starfsmenn. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr verður að fara með eðlilegum hætti í skoðun á málum gagnvart ráðnum starfsmönnum og það verður að gera af heiðarleika og sanngirni. Það er mín afstaða og í ljósi stöðunnar er hvorki eðlilegt né skynsamlegt að fara í þau mál,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Ólíklegt að stjórnarmenn sækist eftir endurkjöri

Gísli telur ólíklegt að stjórnarmenn KSÍ muni sækjast eftir endurkjöri.

„Það metur það auðvitað hver fyrir sig en andinn hjá stjórnarmönnum sem sátu fund í gær var sá að menn myndu draga sig í hlé frá þessum störfum almennt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert