„Brúin stendur þetta örugglega af sér“

Ágúst Freyr Bjartmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Vík.
Ágúst Freyr Bjartmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Vík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Brúin stendur þetta örugglega af sér, ég veit ekki með þá gömlu en þetta virðast ekki vera miklar breytingar, þetta er bara að vaxa hægt og rótt hérna,“ segir Ágúst Freyr Bjartmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Vík um jökulhlaupið í Skaftá. 

Þegar mbl.is náði tali af honum sagði Ágúst ekki mikið vera að gerast. „Vatnsyfirborðið hækkar um einhverja nokkra sentimetra á klukkutíma.“

Ágúst segir að enn eigi eftir að koma í ljós hvort það muni flæða yfir áningastaðinn í Eldhrauni, en staðurinn liggur við þjóðveginn.

„Við vitum ekki hvað það tekur langan tíma en það gerist rosa lítið núna. Það er ekkert að aukast af neinu viti,“ segir hann og bætir við að líklega muni koma í ljós í nótt eða á morgun hvort flæði yfir veginn. 

Tilbúnir til að loka

Telur þú að skemmdir gætu komið fram á vegum?

„Eins og er eru engar skemmdir. Vegurinn er reyndar á kafi við Hólaskjóla á Fjallabaki en venjulega þá sjatnar bara aftur og hann kemur undan. Þetta verður bara eins og pollur, ekki straumur. Annað hef ég ekki séð skemmast,“ segir Ágúst og bætir við að í augnablikinu sé lítið að frétta.

Hann segir að Vegagerðin sé tilbúin til þess að loka vegum ef að því kemur að áin renni yfir þjóðveginn.

„Árið 2018 var eina skiptið sem rann yfir. Hlaupið árið 2015 var hins vegar stærra en þá rann ekki yfir þannig að þetta er mismunandi í hvert skipti. Það eru eiginlega engin hlaup eins.“

Ágúst Freyr Bjartmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Vík, reiknar með að …
Ágúst Freyr Bjartmarsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Vík, reiknar með að brúin yfir Skaftá muni standa jökulhlaupið af sér. mbl.is/RAX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert