Lýsa yfir óvissustigi vegna landriss í Öskju

Eldstöðin Askja er farin að gera vart við sig.
Eldstöðin Askja er farin að gera vart við sig. Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir

Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir óvissustigi vegna landriss við Öskju en undanfarnar vikur hafa hraðar landbreytingar mælst þar. Talið er líklegt að kvika sé að safnast þar fyrir á 2-3 km dýpi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra.

GPS-mælingar og úrvinnsla gervitunglamynda gefa til kynna að 7 cm landris hafi verið á síðustu vikum á þessu svæði. Í næstu viku munu Veðurstofa Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans efla mælingar og vöktun til að hægt sé að fylgjast betur með eldstöðinni.

„Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert