Kvikan brýtur sér leið upp á yfirborðið

Sjá má í kvikuna til hægri og vinstri í fjarska.
Sjá má í kvikuna til hægri og vinstri í fjarska. Ljósmynd/Veðurstofa Íslands

Kvika sem rennur undan gosgígnum eftir lokuðum rásum í Geldingadölum virðist hafa brotið sér leið upp á hraunyfirborðið á nokkrum stöðum. Órói í gosinu hefur aukist í dag eftir að hafa legið niðri í um viku.

„Það lítur út fyrir að þetta sé pípa sem er að renna undan lokuðum rásum frá gígnum og er síðan að brjóta sér leið upp á yfirborðið á nokkrum stöðum. Þetta lítur svolítið út eins og gosop en við höldum frekar að þetta sé kvika að brjóta sér leið upp á yfirborðið,“ segir Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Lovísa segir að kvikan hafi komið upp á yfirborðið á að minnsta kosti tveimur stöðum. 

„Það getur litið út fyrir að það sé ekkert að gerast en svo getur þetta komið fyrir, kvikan brotið sér leið upp,“ segir Lovísa sem varar fólk við að ganga á hrauninu. 

mbl.is