Héraðsdómur fellst á kröfu um málskostnaðartryggingu

Skúli Gunnar Sigfússon.
Skúli Gunnar Sigfússon. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst í dag á kröfu endurskoðendaskrifstofunni KPMG um að Sjöstjarnan ehf., félag í eigu athafnarmannsins Skúla Gunnars Sigfússonar sem jafnan er kenndur við Subway, yrði að leggja fram málskostnaðartryggingu í máli sem Sjöstjarnan hefur höfðað gegn KPMG og lögmannsstofunni Logos.

Konráð Jónsson, lögmaður Sjöstjörnunnar, staðfestir við mbl.is að krafan hafi verið upp á 5 milljónir króna og að héraðsdómur hafi fallist á kröfuna.Hann segir að niðurstaðan verði kærð til Landsréttar. Spurður hvort framhald málsins standi og falli með niðurstöðu Landsréttar segir Konráð að svo sé ekki. Ljóst sé að haldið verði áfram með málið, en að þetta muni tefja framvinduna eitthvað.

Sjöstjarnan hefur stefnt KPMG vegna málsins.
Sjöstjarnan hefur stefnt KPMG vegna málsins. mbl.is/Ófeigur

Málið var höfðað í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar í máli þrotabús EK1923 (áður Eggert Kristjánsson hf.) gegn Sjöstjörnunni vegna ráðstöfunar á fasteign EK1923 að Skútuvogi 3 til Sjöstjörnunnar. Var Sjöstjörnunni gert að greiða 324 milljónir auk vaxta, samtals vel yfir hálfan milljarð, vegna málsins.

Í umfjöllun Fréttablaðsins þegar málið var þingfest kemur fram að Skúli telji að ekki hafi verið rétt staðið að ráðstöfun þessara fasteigna á sínum tíma og sökin sé endurskoðendaskrifstofunnar. Logos sé hins vegar stefnt til vara, en þar er horft til mögulegrar ábyrgðar lögmannsstofunnar sem átti að gæta hagsmuna Skúla og Sjöstjörnunnar, ef KPMG verði sýknað á grundvelli fyrningar á kröfu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert